Lúpína; yfirgnæfandi náttúra
Það er kannski full strangt til orða tekið að kalla lúpínu nýlenduherra en í ljósi sögu hennar og hegðun er hægt að bera menningarheima saman við vistkerfi og fá svipaðar niðurstöður. Það er ekki hægt að færa fyrirbæri úr einu kerfi yfir í annað og ætlast til þess að það hagi sér eins.
Hugmyndin um lúpínuna sem nýlenduherra vaknaði fyrst þegar ég sat námskeiðið Náttúrulandfræði haustið 2018. Þar sat ég alla önnina og hlýddi á ýmsa fyrirlestra um íslenskan jarðveg þar sem lúpínan barst ávallt til tals, alveg sama um hvað ræddi. Við ræddum hvernig innflutta jurtin er í eðli sínu ágeng en engum hefði dottið það í hug að hún myndi sölsa undir sig allan annan gróður og hernema landið. Vegna þess að í Alaska, þar sem lúpínan er upprunnin, bindur hún jarðveginn og víkur svo fyrir öðrum gróðri svo áhrif hennar á vistkerfið eru í raun mjög gagnleg. Og í ljósi þess að íslenski jarðvegurinn var (og er enn) í krísu þótti það tilvalið að flytja plöntuna inn og sá henni út um allt land til landgræðslu. En þar sem Alaskalúpínan nær sér á strik myndar hún þéttar breiður og gjörbreytir eiginleikum jarðvegsins og gróðurfari. Tegundir sem þar áður voru hörfa fyrir henni og þekja þeirra minnkar (Náttúrufræðistofnun Íslands).
Eftir að hafa setið námskeiðið Bókmenntir innflytjenda, kennt af Gunnþórunni Guðmundsdóttur, vaknaði hugmyndin um lúpínuna aftur til lífs, tveimur árum seinna. Mikið hefur verið rætt um nýlenduþjóðir og þau eftirköst sem hernumdu þjóðirnar þurfa að glíma við, jafnvel löngu eftir að Evrópuríkin hafa numið á brott. Í tengslum við þessa baráttu má nefna skáldið Assiu Djebar, en hún er fædd í Alsír sem lengi vel var frönsk nýlenda. Eftir að Frakkar yfirgáfu landið reyndu Alsíringar að afmá öll ummerki þeirra og endurheimta fyrri eiginleika og sjálfsmynd. Djebar á skrifar verk sín á frönsku – en slíkt er almennt litið niður á af hálfu Alsíringa og á hún því erfitt með ímynd sjálfsins sem alsírsk kona sem skrifar frekar á tungumáli ,,óvinarins“, fremur en á móðurmálinu. Nú skulum við ímynda okkur þjóð í þróunarlöndunum og líkja henni við hinn íslenska jarðveg. Einhver gæti talið þjóðina í neyð og aðstoðar þurfi – og hver er betri en siðmenntað Evrópuríki sem getur komið og bjargað deginum? Fært þjóðina til á æðra stig.
Í fyrstu getur það meira að segja litið út fyrir að Evrópuríkið sé að gera gagn, það er að mennta þjóðina og veita henni tæknilega aðstoð, færa hana inn í iðnöldina. En það sem meira er, og kemst ekki upp fyrr en of seint, er að þjóðríkið sjálft missir sérstöðu sína sem víkur fyrir siðum og venjum yfirgangsmikla Evrópuríkisins. Tungumál nýlenduherrans er nú talið æðra, trúarbrögð hans og klæðaburður einnig. Er þetta ekki nákvæmlega það sem er að gerast fyrir íslenskan gróður? Lúpínan, nýlenduherrann, sölsar undir sig allt það land sem hún nær til, veður yfir auðlindir jarðvegsins svo að líffræðilegur fjölbreytileiki hans glatast og eftir standa einungis fjólublá og bleik strá í allri sinni dýrð.
Til þess að tengja baráttu Íslendinga við lúpínuna við fyrri umræðu um Assiu Djebar, má nefna þær tilraunir Íslendinga til þess að útrýma lúpínunni: slá hana áður en hún missir fræ sín eða beinlínis rífa hana upp með rótum. Reynt er að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu og varðveita þann litla gróður sem er eftir – endurheimta landið okkar frá hörðum klóm hinnar innfluttu plöntu.
Að þessu öllu sögðu, þá er ætlunin með þessum pistli ekki sú að hvetja til borgaralegrar styrjaldar gagnvart lúpínunni þar sem barist verður með orfi og ljá. Heldur langaði mig til þess að deila vangaveltum mínum varðandi menningarheima og vistkerfi og benda á hversu líkt samfélagið er náttúrunni okkar.