„Jafnrétti á grundvelli mismunar“

Hitt kynið eftir Simone de Beauvoir

Konur upplifa sig oft sem annars flokks í samfélaginu. Tækifæri þeirra eru ekki eins mikil og karlmanna, lægri laun fyrir sömu vinnu, þær eru ekki teknar jafn alvarlega og karlkyns kollegar þeirra á vinnumarkaðnum og þurfa að jafnaði að hafa meira fyrir því að öðlast virðingu.

Simone de Beauvoir skoðaði stöðu kvenna frá ýmsum sjónarhornum og leitaði svara við því hvert hlutverk þeirra hefur verið, bæði í sögulegu og líffræðilegu samhengi. Hún velti fyrir sér ástæðu þess að konur hafi oftar en ekki sætt sig við að vera settar í óæðra sæti í samfélaginu og leyft þeirri kúgun að viðgangast sem konur hafa svo lengi lifað við. Beauvoir leitaðist jafnframt við að svara spurningunni um kvenleikann, hvaðan sú skilgreining komi og hvort aukið frelsi kvenna hafi orðið til þess að draga úr kvenleika eða jafnvel að hann hafi aldrei verið til.

Hitt kynið

Simone de Beauvoir var ekki hrædd við að gagnrýna karlkyns kollega sína í heimspekinni fyrir þröngsýnar hugmyndir þeirra um konur og kvenleika. Henni var umhugað um konur fengju að skilgreina sig sjálfar. Því skrifaði hún bók sína Hitt kynið (1949), óbeint til þess að hjálpa hinu kyninu, það er að segja karlmönnum, að skilja að það að vera kona er ekki eins einfalt og þeir héldu í fyrstu og að í rauninni er engin ein skilgreining á konum til og enn síður kvenleika. Titill bókarinnar, Hitt kynið, er engu að síður tilvitnun í hugtak karlmanna um konur og kvenleika og tilhneigingu þeirra að aðskilja tilvist kvenna frá sinni eigin tilvist. Í þeirra huga eru konur Hitt kynið eða í öðru sæti á meðan þeir eru í fyrsta sæti, hugmynd sem er mun augljósari í upprunalegum titli bókarinnar: Le Deuxième Sexe.

Beauvoir skrifaði bókina á árunum eftir seinna stríð en hún var gefin út 1949. Bókin átti mikið erindi út í samfélagið á þeim tíma, enda hafði staða kvenna breyst mjög mikið, fyrst eftir fyrri heimstyrjöldina og enn frekar eftir þá síðari. Frá iðnbyltingunni höfðu konur í verkamannastétt að mestu unnið í verksmiðjum en nú voru þær að koma í meira mæli inn á ýmis fræðasvið og í ábyrgðarstöður sem kröfðust menntunar. Karlmönnum fannst þeim ógnað af öllum þessum menntuðu og framagjörnu konum sem heimtuðu jafnrétti.

Kvenleiki

Beauvoir vildi meina að karlmenn hefðu hingað til alfarið skilgreint kvenleika hugtakið og að með auknu frelsi hefðu konur öðlast fleiri tækifæri til þess að brjótast úr viðjum þeirrar skilgreiningar. Beauvoir segir í bók sinni að sálfræðingar hafi hér áður fyrr haldið því fram að karlmenn séu mannskepnan og konur séu einungis konur eða kvenkyns og þegar þær hagi sér eins og mannskepna þá séu þær að reyna að herma eftir karlkyninu. Með öðrum orðum: karlmenn skilgreina konur alfarið út frá sjálfum sér því að þeir eru og hafa alltaf verið nafli alheimsins, að eigin mati. Þeir eru í aðalhlutverki og konur í aukahlutverki.

Samkvæmt skilgreiningu karlmanna á „sannri konu“, á hún að vera léttúðug, barnaleg, ábyrgðarlaus og undirgefin kynvera. Ef konur lifa ekki samkvæmt þeirra skilgreiningu eru þær ósjálfrátt orðnar að ógn við karlmenn og þeir vita ekki hvernig beri að skilgreina þær. Eitt eru þeir þó fullvissir um að þær eru alveg örugglega ekki karlmenn. Að mati Beauvoir munu þeir því miður aldrei skilja þá félagslegu mismunum sem konur hafa þurft að lifa við þar sem þeir þekkja ekki annað en sín meðfæddu forréttindi.


Konan

Í dag er kynið kona skilgreint út frá lífræðinni en hinsvegar er kynvitund konu allt annað dæmi. Það er að segja, þú getur verið kona þótt þú sért ekki fædd með þau æxlunarfæri sem skilgreina þig sem konu út frá líffræðinni. Í samfélaginu í dag getur hugtakið kona verið allskonar. Er það nóg að skilgreina sig sem konu til að vera kona, alveg sama hvernig aðrir skilgreina hugtakið kona. Bara ekki karlmaður. Kona getur sinnt öllum störfum og haft ýmis konar áhugamál og klætt sig á hvaða máta sem er. Ef hún segir að hún sé kona, þá er hún kona, svo einfalt er það.

Simone de Beauvoir vildi koma þessum skilaboðum á framfæri með Hinu kyninu. Hún vildi að eina skilgreiningin á konu væri sú skilgreining sem konur gefa sjálfum sér, sama hver hún er. Bókin Hitt kynið var samt sem áður skrifuð á undan jafnréttisbaráttu transkvenna, sem er enn í hámæli, og nefnir hún þær ekkert sérstaklega. Samt sem áður gefa hugmyndir hennar um hvað kona er, baráttu transkvenna byr undir báða vængi því hún gefur hverjum þeim sem skilgreina sig sem konu algjört frelsi til að vera kona. Alveg sama hvað líffræðin segir.

Höfnun á skilgreiningum

Þar sem kvenleiki er fyrst og fremst samfélagslega mótuð hugmynd út frá karlmönnum, má álykta sem svo að hann hafi annað hvort aldrei verið til eða hin raunverulega hugmynd um kvenleika, skilgreindan út frá konum, sé mun víðtækara og persónubundnara hugtak. Konur ættu ekki að þurfa að skilgreina sig, rétt eins og karlmenn þurfa ekki að skilgreina sig. Þegar einstaklingur fær að lifa lífi sínu sem einstaklingur og manneskja án þess að vera skilgreindur eftir samfélagslegum tilbúnum hugtökum um kyn og hvað þá kynþætti, þá fyrst getum við talist standa jafnfætis sem manneskjur.

Jafnréttisbaráttunni er ennþá ekki lokið þótt núna sé árið 2020. Konur fá ennþá ekki sömu laun fyrir sömu vinnu og karlmenn og þurfa ennþá að hafa meira fyrir því en karlmenn að fá sömu tækifæri og virðingu á vinnumarkaði. Það mun taka enn lengri tíma, enn fleiri kynslóðir og mjög mikla fræðslu og vitundarvakningu áður en fastmótaðar hugmyndir um kynin sem hafa fengið að ráða ríkjum í fleiri aldir, verða afmáðar fyrir fullt og allt.