Bilaður magnari breytti tónlistarsögunni
Þann 12. júlí 1960 fóru fram hljóðversupptökur sem áttu eftir að breyta tónlistarsögunni til frambúðar. Kántrípopparinn Marty Robbins og hljómsveitarmeðlimir hans voru samankomnir, ásamt upptökustjóranum Don Law, til þess að taka upp nýjustu smáskífu Robbins, lagið „Don‘t Worry“. Grunaði þá ekki að bilaður magnari í hljóðverinu ætti eftir að breyta tónlistarsögunni til frambúðar.
Samkvæmt Marty sjálfum gekk allt sinn vanagang í hljóðverinu er hljómsveitin spilaði lagið og enginn varð var við neitt athugavert. Marty söng angurværa ballöðu um sambandsslit við hnökralausan undirleik hljómsveitar sinnar. En uppi varð fótur og fit þegar þeir hlustuðu aftur á upptökuna. Eftir eina mínútu og 25 sekúndur, þegar Marty Robbins var búinn að fara með eitt fallegt erindi og viðlag, byrjaði millikafli sem átti að innihalda grípandi laglínu leikna á sex strengja rafmagnsbassa. En á upptökunni var engan bassagítar að heyra — eða hvað? Það var engu líkara en að skyndilega hefði birst stór sveit þokulúðra og saxófóna og spilað millikaflann í stað bassagítarleikarans.
Það sem gerðist í raun var að bilun í magnara „session“-gítarleikarans Grady Martin olli svokallaðri ferningsbylgju sem skilaði sér í bjagaðri og loðnari hljóm en áður hafði þekkst. Og þar með var Fuzz tónninn fæddur sem átti eftir að hafa gríðarleg áhrif í tónlist næstu áratuga. Hvað Marty Robbins varðar vildi hann í fyrstu fjarlægja loðnu línurnar hans Martins úr laginu. En upptökustjórinn Don Law sannfærði Robbins um að halda þeim inni. Þetta bjagaða loðna hljóð olli svo miklu fjaðrafoki að það er enn verið að skeggræða uppruna Fuzzins núna 60 árum síðar. „Don‘t Worry“ þaut beint í toppsæti ameríska Kántrí Billboard listans og sat þar sem fastast í í heilar tíu vikur. Lagið náði hæst þriðja sæti á Topp 100 Billboard listanum. Marty Robbins lærði á endanum gott að meta, sérstaklega eftir að lagið sló í gegn og hann vildi því þennan hljóm á tónleikum líka. En hljóðfæraleikararnir í hljómsveiti hans voru í stökustu vandræðum með að endurskapa hljóðið.
Keith Richards, gítarleikari Rolling Stones notaðist við Maestro FZ-1 Fuzz Tone pedalinn þegar hann tók upp gítarstefið ógleymanlega í „(I Can‘t Get No)Satisfaction“
Marty segir frá ýmsum misgóðum aðferðum tónlistarmannana við að ná því fram. Stundum klóraði Marty magnarakeiluna að aftan til að reyna að bjaga hljóðið í magnara gítarleikarans Jack Pruetts. Sá reyndi oft að hækka magnarann í botn til að bjaga hljóðið, en það virkaði ekki alltaf. Tæknimennirnir úr hljóðverinu náðu loks að átta sig á hvernig Fuzz tónninn virkar og hönnuðu skýringarmyndir sem þeir seldu Gibson gítarframleiðendunum. Í kjölfarið hönnuðu Gibsonmenn fyrsta Fuzz pedalinn: Maestro FZ-1 Fuzz-Tone.
Pedallinn gerði gítarleikurum sem stóðu á sviði kleift að ýta á takka með fætinum og breyta þannig gítarnum í áðurnefnda þokulúðrasveit á augabragði. Til að mynda notaðist Keith Richards, gítarleikari Rolling Stones, við Maestro FZ-1 Fuzz Tone pedalinn þegar hann tók upp gítarstefið ógleymanlega í „(I Can‘t Get No)Satisfaction“ árið 1965. Í framhaldi af velgengni Maestro FZ-1 Fuzz Tone fóru fleiri framleiðendur að gefa út sínar eigin útgáfur af Fuzz Tone pedulum og ekki leið á löngu þar til Fuzz tónninn fór að eiga sinn þátt í að gera tónlist einstakra listamanna ódauðlega. Þar má nefna til dæmis Electro-Harmonix Big Muff og Fuzz Face frá Arbiter sem ekki minni spámenn en Carlos Santana og Jimi Hendrix notuðu mikið á meðan þeir heilluðu heimsbyggðina upp úr skónum með gítarleik sínum.
Þegar líða tók á sjöunda áratuginn og í byrjun þess áttunda fóru að stíga fram á sjónarsviðið hljómsveitir eins og Led Zeppelin og Black Sabbath, sem þóttu þyngri en áður þekktist. Ein helsta undirstaðan í þungarokkinu þeirra voru einmitt háværir, bjagaðir og loðnir gítarhljómar. Það er hægt að hlusta á „Don‘t Worry“ með Marty Robbins hér fyrir neðan (fyrsti „Fuzztónn“ tónlistarsögunnar byrjar á 1:25).
Eins og margar af merkustu uppgötvunum mannkynssögunnar þá var uppgötvun Fuzz tónsins tilviljun. En það var ljóst frá byrjun að uppgötvunin var komin til að vera, enda var mikil vinna lögð í að endurskapa hljóðið úr bilaða magnaranum sem varð kveikjan að vinsældum Fuzzins. Eftir að hljóðfæraframleiðendur settu pedalana á markað sem gerðu hvaða tónlistarmanni sem er kleift að bæta við Fuzzi í hljóðheim sinn varð Fuzz fljótlega óaðskiljanlegur hluti af gítardrifinni rokktónlist, og mun sennilega vera það um ókomna tíð.
Heimildir
Diekman, Diane. (2012). Twentieth Century Drifter: The Life of Marty Robbins. University of Illinois Press.
Hunter, Dave (2004). Guitar Effects Pedals: The Practical Handbook. Hal Leonard.
Walser, Robert (1993). Running with the Devil: Power, Gender, and Madness in Heavy Metal Music. Wesleyan University Press.