Jaðarkvennasaga: Förukonur og einsetukonur á Íslandi
Viðtal við Dalrúnu J. Eygerðardóttur
Ég keyrði á fallegum haustdegi inn Mosfellsdalinn. Leið mín lá upp brekku að Hraðastöðum þar sem sagnfræðingurinn Dalrún J. Eygerðardóttir tók á móti mér með heitri súpu og heimabökuðu brauði. Ég var mætt til að taka stutt viðtal við hana um bók hennar Jaðarkvennasaga: Förukonur og einsetukonur á Íslandi, sem kom út fyrr á þessu ári.
Hver er bakgrunnur þinn og menntun?
Ég er uppalin hér á Hraðastöðum í Mosfellsdalnum; þar sem búið hefur verið frá landnámi. Þar byggði ég mér kot fyrir nokkrum árum þar sem ég í senn bý og sinni mínum kvennasögurannsóknum. Menntunarbakgrunnur minn byggir annars vegar á BA-gráðu í kvikmyndafræði og hins vegar á BA-gráðu og MA-gráðu í sagnfræði við Háskóla Íslands. Í dag er ég að vinna að doktorsrannsókn í sagnfræði við sama skóla. Doktorsrannsókn mín fjallar um sögu ráðskvenna í sveit á síðari hluta 20. aldar og grundvallast á viðtölum mínum við fyrrum ráðskonur.
Í sagnfræðirannsóknum mínum legg ég áherslu á að skoða sögu kvenna á Íslandi. Ennfremur legg ég mikið upp úr því að notast við aðferðir munnlegrar sögu til að skrá og greina raddir kvenna. Í viðtalsvinnu minni er kvikmyndun hluti af skráningarferlinu. Tjáning er svo margslungin og sjónrænan hluta hennar er hægt að festa í heimildir með því að kvikmynda viðtölin. Ef viðtölin eru einungis hljóðrituð þá tapast þessi myndræna tjáning sem einkennir framsetningu kvenna í viðtölum þeirra. Femínísk kvikmyndanálgun er mikilvægur þáttur í þeirri viðleitni að saga kvenna í sögunni verði skráð á óhlutdrægan hátt sem er ekki síst mikilvægt með hliðsjón af þeirri jafnréttisbaráttu heyja þarf, þar til sess kvenna er sá sami og sess karla í samfélaginu og um leið í sögunni.
Um hvað er bókin þín Jaðarkvennasaga, og hvernig vannstu efnið?
Jaðarkvennasaga fjallar um einstæðingskonur sem voru á jaðri gamla bændasamfélagsins vegna lífshátta sinna allt fram eftir 20. öldinni. Þar koma annars vegar við sögu förukonur sem flökkuðu á milli bæja til að biðja sér fæðis og húsaskjóls og hins vegar einsetukonur sem lifðu einsetulífi sem bundið var við híbýli þeirra. Þessir lífshættir kvennanna, sem grundvölluðust ýmist á sífelldum ferðum þeirra á milli bæja eða algjörri kyrrstöðu þeirra í kotum sínum, sáu til þess að þær lifðu einangruðu lífi. Sjálfstæði þessara kvenna er áhugaverður eiginleiki sem var stundum keyptur dýru verði vegna þess að líferni þeirra gerði þær berskjaldaðar gagnvart ýmiskonar mótlæti af hálfu samtímafólks.
Í bókinni fjalla ég um æviskeið margra af síðustu föru- og einsetukonum Íslands sem ég byggi að miklu leyti á viðtölum mínum við aðila sem mundu eftir þeim konum úr barnæsku sinni. Þannig gat ég sótt nýjan fróðleik um þær konur og sett fram í bókinni. Auk þess fjalla ég ítarlega um ýmis einkenni sem eru sammerk með förukonum og einsetukonum, til dæmis með hliðsjón af bakgrunni þeirra, líferni og tjáningu kvennanna. Ég skoða líka séreinkenni frásagna fólks af jaðarkonum. Til að mynda staðlaðar ímyndir af konunum og rótgrónar frásagnarhefðir sem einkenna jaðarkvennasagnir. Til samanburðar skoðaði ég frásagnir af jaðarsettum konum í heimildaflokkum á borð við helgisagnir, þjóðsagnir og ævintýri. En í þeim skálduðu heimildum komu fyrir mjög kunnugleg stef sem auðkenna sagnir af förukonum og einsetukonum.
Getur jaðarkvennasaga fyrri tíma varpað ljósi á stöðu jaðarsettra kvenna í dag?
Sannarlega, markmið útgáfunnar var ekki síst að vekja athygli á og auka skilning almennings á högum jaðarsettra kvenna í nútímasamfélagi, enda vissir grunnþættir sem koma þar við sögu sem eru þeir sömu, sama hver sem tíðin er. Sagan er eitt af þeim tólum sem við notum til að skilja eigið samfélag og þess vegna er það svo mikilvægt að sagan nái til allra hópa samfélagsins – því sagan á að endurspegla samfélagið enn ekki einungis hluta samfélaga. Það er tímabært að aðstæður jaðarsettra kvenna og saga þeirra sé til umfjöllunar ásamt öðru í okkar samfélagi. Í bókinni tileinkaði ég einn kafla jaðarkonum samtímans. Þeim konum sýndi ég einnig hug minn með því að láta hluta af styrk sem ég hlaut fyrir útgáfu bókarinnar renna til Konukots, neyðarathvarfs fyrir konur á Íslandi í dag.