Sólveig Ásta Sigurðardóttir
Ég er með BA– og meistarapróf í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Leiðbeinendurnir mínir voru Daisy Neijmann, Jón Yngvi Jóhannsson og Gunnþórunn Guðmundsdóttir. Í dag starfa ég við deild enskra bókmennta hjá Rice háskóla í Houston, Texas sem doktorskandídat en hef einnig stöðu við kvenna- og kynjafræðideild skólans. Verkefnið mitt snýr að nítjándu og tuttugustu aldar bandarískum bókmenntum og hvernig norræn nýlendustefna birtist í verkum höfunda á borð við Langston Hughes og Nella Larsen en einnig hvernig hugmyndir um „Norðrið“ eru samofnar vísindaorðræðu þess tíma.
Námið í almennri bókmenntafræði bauð upp á kynni við höfunda og fræðafólk sem störfuðu innan hugvísinda en einnig á þverfaglegan máta. Ég sótti mikið í hugmyndir eftirlendufræða sem og hugmyndir mannfræðinga og það leyfði mér að hugsa bækur sem vettvang þar sem samfélagshugmyndir birtast, þar sem höfundar taka áhættur, spyrna gegn og birta ákveðna veruleika.
Ég hafði mikinn áhuga á að skoða hvernig hugmyndir um þjóðríkið birtust í samtímabókmenntum og þá sérstaklega hjá höfundum sem lögðu sig eftir að fjalla um eða birta „fjölmenningu“ í verkum sínum. Rannsóknin mín var undir áhrifum frá fræðimönnum innan hugvísinda og þá sérstaklega þeirra sem sérhæfa sig í langtíma áhrifum nýlendustefnunnar og kynþáttahyggju svo sem Gayatri Spivak, Homi Bhabha og Frantz Fanon en einnig frá samtölum við listamenn og höfunda á Íslandi um hvernig markaðssetning íslenska þjóðríkisins hefur áhrif á hvaða bækur eru gefnar út, hverjir fá styrki til listsköpunar og svo framvegis.
Undir handleiðslu Jóns Yngva Jóhannssonar og Gunnþórunnar Guðmundsdóttur vann ég samanburðarrannsókn á þremur íslenskum skáldverkum sem teljast til þriggja mismunandi greina með áherslu á birtingarmyndir persóna af erlendum uppruna. Þverfagleg aðferðafræði hefur verið ráðandi í minni vinnu síðan, en árið 2018 kom ég að þemaritinu „Lög og bókmenntir“ þar sem má finna grein eftir mig og Guðrúnu Baldvinsdóttur bókmenntafræðing um lagaflækjur tengdar íslenskum samtímaskáldsögum.
Sólveig Ásta Sigurðardóttir og Guðrún Baldvinsdóttir, „Sannar íslenskar sögur?: Frásagnir, tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífsins“, Ritið, tölublað 1, árgangur 18, Hugvísindastofnun, Reykjavík, 2018, bls. 119.-