Sjöfn Hauksdóttir

Sjöfn er með BA-próf í almennri bókmenntafræði og skrifar nú meistararitgerð um sjónvarpsþáttaröðina  Dear White People sem framleidd er af streymisveitunni Netflix og er til sýningar þar.

„Ég hef alltaf elskað að lesa og er mjög ánægð með að hafa fundið nám sem snýst eingöngu um að lesa og hugsa um bækur. Uppáhalds liturinn minn er grænn. Ég hef gefið út eina ljóðabók og næsta ljóðabók eftir mig kemur út í mars 2020. Uppáhalds tónlistarmanneskjan mín er David Bowie og uppáhalds hljómsveitin mín er Pink Floyd“.

Leiðbeinandi: Alda Björk Valdimarsdóttir.

Um ritgerðaskrifin

Það að skrifa þessa ritgerð hefur verið mikið og langt ferli. Ótal sinnum hef ég frestað skiladegi því mér finnst ég hafa meira að segja, meira að lesa og vil gera mitt besta. Það hefur einnig sett strik í reikninginn að ég glími við langvinnan sjúkdóm sem á það til að draga úr mér orku, en ég hef ákveðið að láta það ekki stoppa mig. Leiðbeinandinn minn, Alda Björk Valdimarsdóttir, hefur einnig verið ótrúlega hjálpsöm, bæði kemur hún með góðar hugmyndir að efni til að skoða og hefur gefið mér rými til að vinna á mínum hraða, sem er aðeins hægari en hjá fullfrísku fólki. Ef ég hef eitthvað ráð fyrir fólk sem er að fara út í ritgerðarskrif er það að velja leiðbeinanda sem skilur bæði þig og efnið.

Útdráttur

Ég valdi að fjalla um áhrif hins hvíta valdakerfis í sjónvarpsþáttaröðinni Dear White People sem er aðgengileg á Netflix. Hvíta valdakerfið (e. white supremacy) er eitthvað sem við Íslendingar þekkjum ekki jafn vel og Bandaríkjamenn, en á þó erindi við okkur. Þannig er mál með vexti að hvítt fólk hefur náð þeirri stöðu, með nýlendustefnu, virðingarpólitík (e. Respectability politics) og öðru, að tróna á toppi heimsins á kostnað einstaklinga sem eru ekki hvítir. Í ritgerðinni minni skoða ég hvernig þessi áhrif sjást í þessari tilteknu sjónvarpsþáttaröð og lít til mannkynssögunnar og sögu Bandaríkjanna til að varpa ljósi á hvernig staðan er í dag. Að auki lít ég til hörundslitafordóma og hárpólitíkur, kynjaðs misréttis og bælingu kynferðis.