Alda Björk Valdimarsdóttir

Dósent

Alda Björk Valdimarsdóttir

Í hnotskurn

Hvernig lá leið þín í
almenna bókmenntafræði?

Ég var í Verzlunarskólanum og sótti þar námskeið hjá Þórði Helgasyni, sem kveikti áhugann á bókmenntafræði. Það voru held ég fjórir nemendur úr þessu námskeiði sem enduðu að lokum í greininni. Ég var líka að íhuga að læra leiklist og árið eftir stúdentspróf fór ég í nám í lýðháskóla í Danmörku sem sérhæfir sig í leiklist og tónlist. Ári síðar hóf ég nám í almennu bókmenntafræðinni hér heima og ég er ennþá að læra bókmenntafræði.

Hvað er það áhugaverðasta við almenna bókmenntafræði?

Að lesa og greina skáldskap er það sem bókmenntafræðin snýst um. Skáldskapurinn tekur á öllum víddum mannlegrar hegðunar og góður skilningur á skáldskap þroskar einstaklinginn og er góður undirbúningur fyrir lífið sjálft, hvert svo sem framtíðarstarfið verður. Enda hafa nemendur endað á ólíklegustu stöðum eftir nám í almennri bókmenntafræði.

Af hverju er almenn bókmenntafræði sniðugt námsval?

Nemendur öðlast ekki aðeins færni í lestri á skáldskaparlegu tungumáli, þeir læra einnig að greina mannleg samskipti og samfélagið sem þeir lifa í, hvort sem um er að ræða samband kynjanna, eða djúpar siðferðilegar spurningar sem lúta að hinu góða lífi eða andstæðunni, ofbeldi og spillingu. Þá þekkingu sem kemur með bókmenntalestri má svo heimfæra upp á tungumál fjölmiðla og stjórnmála, því að bókmenntirnar taka á öllu því sem samfélagið fæst við, hinu stóra og því smáa, gleðinni og harminum. Bókmenntafræðin dýpkar einnig skilning okkar á tungumálinu, hlutverki þess og mikilvægi fyrir samfélagið.  

Hvert er þitt áhugasvið innan fræðigreinarinnar?

Ég hef meðal annars áhuga á kvennabókmenntum, enskum 19. aldar bókmenntum, umritunum klassískra bókmennta, ljóðlist, póstfemínisma, skvísumenningu, arfleifðarmyndum og frægðarfræðum. Bók mín Jane Austen í samtímanum, kom út árið 2018, en ég hef einnig skrifað talsvert um íslenska samtímamenningu og bókmenntir, t.d. bækur um Steinunni Sigurðardóttur og Hallgrím Helgason, greinar um Gerði Kristnýju, Tobbu Marínós og Halldór Laxness, um arfleifðarmyndir, umritanir og aðlaganir, um póstfemínisma og skvísubókmenntir, auk þess sem ég hef þýtt úrval greina um kvikmyndastjörnur.

Námsferill

2014

Doktorspróf, Háskóli Íslands, Almenn bókmenntafræði

2004

MA-próf, Háskóli Íslands,
Almenn bókmenntafræði

1999

BA-próf, Háskóli Íslands, Almenn bókmenntafræði

Tilvitnunin

Hvítur

1.

Ég fölna við það eitt að opna augun.

Í hádeginu
borða ég bleikju
og afhýddar möndlur.

Skræli kartöflu

(þegar ég vil miklu frekar
klæða hana í húðina
svo að hún visni ekki)

og pakka ljósnálinni inn í deig.

Ég blikna við að draga frá gardínurnar.

2.

Sjá þeir ekki
hvernig dagsljósið
hefur misst ljóma sinn?

Dagur hættir brátt
að vera dagur
og undirbýr brottför sína

ferðalag eitthvert vestur
með aleiguna á bakinu,
og litina sem þekja landið

í farangrinum.

 

Tímarit Máls og menningar 1/2018, bls. 54.

Hafa samband

Molinn

Tómið í kringum höfundarnafn Jane Austen má skoða sem merkingarþrungna eyðu sem við leitumst sífellt við að fylla. Hver er svo goðsagan um Austen? Fyrir hvað stendur hún sem guð frásagna sinna? Er hún guð miskunnar og félagslegra tengsla eins og svo margir sjálfshjálparhöfundanna vilja ætla, eða er hún hinn grimmi guð félagslegs darwinisma sem ýmsir lofsyngja. Er hún leikjafræðingur eða trúir hún á merkingarþungið afl ástarinnar? Kannski bæði? Hvernig getur höfundavirkni verið svona fjölbreytileg? Það er til vitnis um goðsögulegan mátt skáldkonunnar að hún getur verið þetta allt í senn og svo margt fleira. En um leið og við segjum að Jane Austen geti táknað nánast allt þá er hún um leið eyða sem við leitumst við að fylla og skilgreina.

Í Atómstöðinni fangar Halldór Laxness afskaplega vel torrætt sambandið milli inntaks trúarinnar og tómsins sem blasir við þegar rýnt er í guðina:

Ég held að þú vitir ekki á hvað þú trúir faðir minn, sagði ég.
Ojú telpa mín, ég trúi á mitt guð, við trúum á okkar guð, svaraði þessi ofstækislausi trúmaður og brosti að saklausu hjali okkar. Það er að vísu hvorki lútersguð né páfaguð; og því síður jesúguð, þó sá kunni að vera tíðnefndastur í fyrirskipuðu lesi prestsins; og ekki heldur þeir Þór, Óðinn og Freyr; jafnvel ekki sjálfur graðhesturinn, einsog þeir halda fyrir sunnan. Okkar guð er það sem eftir er þegar öll guð hafa verið talin og sagt nei, ekki hann, ekki hann.

Hver er Jane Austen? Þetta er ekki hún og þetta er ekki hún, segja aðdáendur skáldkonunnar og líka þeir sem vilja bjarga henni frá aðdáendum hennar. Og hvað segir lesandinn þá? Að sjálfsögðu það sem honum ber. Það gerir góður lesandi ávallt.