Ragnheiður Birgisdóttir

Ragnheiður Birgisdóttir

Ragnheiður er með BA-próf í almennri bókmenntafræði og stundar nú meistaranám í sömu grein við Kaupmannahafnarháskóla. Hún hefur gaman af ritstörfum og hefur meðal annars starfað sem blaðamaður og setið í ritstjórn Stúdentablaðsins. Hún hefur áhuga á flest öllu sem við kemur menningu og listum, auk þess sem umhverfismál eru henni ávallt ofarlega í huga.

Leiðbeinandi: Guðni Elísson.

Frá afneitun til þekkingar. Um loftslagsbreytingabókmenntir, hlutverk þeirra og Flight Behavior eftir Barböru Kingsolver

Loftslagsbreytingar eru eitt mest aðkallandi vandamálið sem mannkynið þarf að kljást við á næstu árum. Hlutverk bókmennta er meðal annars að bregðast við samtímanum og því hafa ýmsir rithöfundar tekið að skrifa um þessa miklu náttúruvá. Skáldverk um þetta efni þykja mörgum ekki eiga vel heima í neinni þeirra bókmenntagreina sem skilgreindar hafa verið heldur eiga skilið að kallast sérstök grein. Í ritgerðinni er sjónum beint að hinni nýju bókmenntagrein loftslagsbreytingabókmenntum og rætt um sérstöðu hennar og tengsl við aðrar greinar. Í þeirri umfjöllun er einkum stuðst við skrif Adams Trexler (Anthropocene Fictions: The Novel in a Time of Climate Change (2015)) og Antoniu Mehnert (Climate Change Fictions: Representations of Global Warming in American Literature (2016)). Velt er upp spurningum um hlutverk greinarinnar í umræðunni um loftslagsvána, sem snýst almennt um skoðanaskipti um niðurstöður vísindarannsókna, þ.e. hvort skáldverk af þessu tagi geti haft áhrif á lesendur og þá jafnvel meiri en vísindatextar.

Í síðari hluta ritgerðarinnar er tekið dæmi af einu slíku verki. Fyrir valinu varð skáldsagan Flight Behavior eftir bandaríska rithöfundinn Barböru Kingsolver sem kom út árið 2012. Rakið er hvernig höfundurinn fjallar um efnið og gerir það aðgengilegt fyrir lesendur. Fram kemur að í verkinu dregur Kingsolver upp skýra mynd af veröldinni á tímum loftslagsbreytinga og gerir grein fyrir áhrifum hnattrænnar hlýnunar með þremur efnisþáttum skáldsögunnar. Í fyrsta lagi eru það breytingar á náttúrunni sem birtast bæði í breyttri veðráttu og áhrifum á búsetu kóngafiðrilda. Annar þátturinn er ólík viðhorf manna til loftslagsbreytinga; óupplýsts almennings, umhverfissinna og vísindamanna. Loks er þriðji þátturinn leið aðalpersónunnar Dellarobiu Turnbow frá afneitun og áhugaleysi á vandanum til djúprar þekkingar á hnattrænni hlýnun. Þessir þrír þættir fléttast saman þegar Kingsolver dregur upp raunsæja og heildstæða mynd af yfirvofandi loftslagsvanda.