Óskar Þór Axelsson

Hvenær útskrifaðist þú, um hvað var lokaritgerðin?

Ég útskrifaðist með BA-próf í almennri bókmenntafræði í júní 1997. Lokaritgerðin fjallaði um “kvikmyndalega” sýn August Strindberg, sérstaklega í leikriti hans Draumleik. Hvar ég velti upp þeirri pælingu að mögulega hefði Strindberg frekar valið sér kvikmyndamiðilinn en leikhúsið til að segja þá sögu ef hann hefði verið uppi aðeins örfáum áratugum seinna. En margt í leiklýsingum hans sem almennt voru mjög sjónrænar, var afar framúrstefnulegt fyrir hans tíma og flókið í framkvæmd í leikhúsi á meðan það er að mínu mati mun nær tungumáli kvikmyndarinnar. Nægir þar að nefna “klippingu” á milli sviðsmynda sem hann leggur til með flóknu samspili hreyfanlegra leiktjalda. Það er auk þess þekkt að Strindberg var mjög heillaður af þeim kvikmyndum sem hann sá áður en hann lést skömmu eftir fæðingu kvikmyndarinnar árið 1912.
 
Hvernig fannst þér námið, myndir þú mæla með því?
 
Ég valdi mér almenna bókmenntafræði beinlínis af því að ég taldi það geta verið góðan undirbúning fyrir kvikmyndagerð sem er mín köllun í lífinu. Ég þurfti auk þess BA-próf af einhverju tagi til að geta sótt um meistaranám í kvikmyndagerð í Bandaríkjunum sem var ætíð draumur minn. 
 
Þegar ég hóf nám 1993 var engin kvikmyndafræði í HÍ, en svo heppilega vildi til að á sama tíma var Guðni Elísson að byrja að kenna við deildina en hann hafði hafði mikinn metnað til að innleiða kvikmyndafræði inn í námsskrána. Þar að auki var talsverð slagsíða upprennandi kvikmyndagerðarmanna í deildinni á þessum tíma, en auk mín hófu t.d. nám við deildina þeir Huldar Breiðfjörð, Þórir Snær Sigurjónsson, Ottó Geir Borg og Arnar Knútsson sem ég hef síðan unnið með öllum að kvikmyndagerð, ásamt líka upprennandi kvikmyndafræðingum eins og Birni Þór Vilhjálmssyni, Heiðu Jóhannsdóttur og Sigurgeiri Orra Sigurgeirssyni.
 
Þannig að undir leiðsögn Guðna ásamt aukinnar áherslu á kvikmyndir í námskránni má segja að á þessum árum hafi í deildinni orðið til skemmtilegur suðupottur fólks með óbilandi kvikmyndaáhuga og hungur til að láta til sín taka bæði hvað varðar gerð kvikmynda sem og fræðilegrar umfjöllunar. Og þarna má segja að fyrstu markvissu skrefin hafi verið stigin í átt til kvikmyndafræði innan vébanda HÍ, m.a. með útgáfu hinnar metnaðarfullu bókar Heims kvikmyndanna sem Guðni ritstýrði og mörg okkar nemanda hans skrifuðum greinar í.
 
BA-nám í almennri bókmenntafræði er mjög góður og almennur grunnur og hægt að mæla með honum fyrir þá sem hyggjast starfa í skapandi og fræðilegum greinum. Það er töluvert frelsi hvað varðar val á námskeiðum og ég nýtti mér það til fulls, bæði í Erasmus parti míns náms í London, sem og innan annarra deilda í HÍ. En ég sótti m.a. námskeið í heimspeki, íslensku og stjórnmálafræði sem ég fékk öll metin að fullu til BA-gráðunnar og juku þannig breidd námsins.
 
Hvað ertu að gera í dag og nýtist menntunin í starfi?
 
Námið hefur reynst mér ómetanlegur grunnur í starfi mínu sem og framhaldsnámi í kvikmyndagerð við New York University. Almennur og djúpur skilningur á frásögn og strúktúr sem námið færði, hefur reynst mitt haldreipi hvort sem ég er sjálfur að skrifa handrit eða lesa eftir aðra með þann möguleika að leikstýra þeim. Þetta er kannski hinn augljósi hagur af náminu, en ekki síður var mér mikilvægt að temja mér öguð vinnubrögð sem hinn mikli lestur og ritgerðarvinna í náminu krafðist, það hefur reynst mér afar dýrmætt á mínum ferli.
 
Mál hafa atvikast þannig að mörg verkefna minna eru byggð á bókmenntaverkum. Þó það sé síst auðveldara en að skrifa frumsamdar sögur, þá hefur mér alltaf fundist henta mér vel persónulega að aðlaga bækur að kvikmyndaforminu og þar skiptir án efa bakgrunnur minn úr bókmenntafræðinni sköpum.
 
Ég hef frá útskrift 1997 starfað óslitið við kvikmyndagerð, bæði á Íslandi og erlendis. Strax að útskrift lokinni stofnaði ég fyrirtækið “Þeir tveir” sem framleiddi sjónvarpsefni og auglýsingar. Fór svo árið 2001 í nám til New York og starfaði þar sem kvikmyndatökumaður að loknu námi þar til ég flutti aftur til Íslands árið 2009. Eftir að ég skrifaði og leikstýrði minni fyrstu kvikmynd í fullri lengd, Svartur á leik, sem kom út árið 2012, hef ég leikstýrt fjölmörgum þáttum fyrir sjónvarpsseríur á borð við hinar íslensku Ófærð og Stella Blómkvist, ásamt kvikmyndinni Ég man þig sem ég aðlagaði einmitt ásamt Ottó Borg í framleiðslu Þóris Snæs og föður hans Sigurjóns Sighvatssonar sem einnig er með BA-próf í almennri bókmenntafræði frá HÍ!