Magnús Sigurðsson
Magnús Sigurðsson fæddist á Ísafirði árið 1984. Stúdentsprófi frá fornmáladeild Menntaskólans í Reykjavík, Dux Scholae, lauk hann árið 2004.
Frá 2004–2007 lagði Magnús stund á nám í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands með enskar bókmenntar sem aukagrein. Fyrir BA-ritgerð sína, Ezra Pound og Söngvarnir frá Písa, sem unnin var undir leiðsögn Ástráðs Eysteinssonar prófessors, hlaut Magnús Verkefnastyrk Félagsstofnunar stúdenta árið 2007. Samanstóð ritgerðin af umfjöllun um skáldskap og hugmyndaheim bandaríska ljóðskáldsins Ezra Pound ásamt íslenskri þýðingu á ljóðabálkinum Söngvunum frá Písa (The Pisan Cantos). Verkið telst til stórvirkja í ljóðabókmenntum Vesturlanda og er að margra mati hápunkturinn í hinu mikla æviverki Pound, The Cantos. Þýðing Magnúsar, ásamt ítarlegum inngangi, kom út hjá Háskólastofnun árið 2007.
Frá 2010–2012 stundaði Magnús meistaranám í almennri bókmenntafræði við Lunds Universitet í Svíþjóð auk eins misseris námsdvalar sem Erasmus-nemi við Universität Göttingen í Þýskalandi. MA-gráðu frá Lunds Universitet lauk Magnús árið 2012 með meistaraprófsritgerð sinni Learn of the Green World what Can Be thy Place, um ljóðlist og lífshlaup norska ljóðskáldsins Tor Ulven. Árið 2013 kom þýðingaúrval Magnúsar á ljóðum Ulven út hjá bókaútgáfunni Uppheimum.
Frá 2014–2019 stundaði Magnús doktorsnám í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands undir handleiðslu Ástráðs Eysteinssonar prófessors. Hluta doktorsnámsins, háskólaárið 2015–2016, stundaði Magnús við University of Minnesota, sem styrkþegi úr námssjóði Val Bjornson. Doktorsprófi sínu lauk Magnús árið 2019. Fjallaði doktorsritgerðin um bandaríska ljóðskáldið Emily Dickinson, með áherslu á túlkun og viðtökur ljóða hennar á síðari tímum, bæði erlendis sem og á Íslandi. Rannsóknin var þverfræðileg, á mörkum bókmenntafræði, þýðingafræði og ritlistar. Sérstaklega var fjallað um stöðu íslensks þýðanda og íslenskrar ljóðlistar andspænis ljóðum Dickinson, og mynduðu þýðingar Magnúsar á allmörgum ljóða Dickinson hluta rannsóknarinnar. Ein meginforsenda rannsóknarinnar var að verkefni bókmenntaþýðenda skarist í senn við frumsaminn skáldskap og við túlkunarstarf gagnrýnenda og fræðimanna, en þýðingar myndi þó jafnframt sérstaka og að ýmsu leyti sjálfstæða gerð orðræðu. Þýðingaúrval Magnúsar á ljóðum Emily Dickinson er væntanlegt frá bókaútgáfunni Dimmu árið 2020.
Magnús hefur kennt námskeið um ljóð og ljóðaþýðingar, bæði á grunn- og framhaldsstigi, við Háskóla Íslands.
Auk fræðastarfa og ljóðaþýðinga hefur Magnús lagt stund á skáldskap og ýmiss konar ritstjórnarstörf. Frá 2008–2014 gegndi Magnús stöðu ritstjóra hjá bókaútgáfunni Uppheimum. Frá árinu 2015 hefur Magnús starfað sem ritstjóri hjá bókaútgáfunni Dimmu. Fyrir fyrstu ljóðabók sína, Fiðrildi, mynta og spörfuglar Lesbíu, hlaut Magnús bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2007. Fyrir ljóð sitt „Tunglsljós“ var Magnús sæmdur Ljóðstafi Jóns úr Vör árið 2013. Fyrir ljóðabók sína Veröld hlý og góð var Magnús tilnefndur til Maístjörnunnar árið 2017. Árið 2017 kom ljóðabók Magnúsar Tími kaldra mána út í Bandaríkjunum undir heitinu Cold Moons í enskri þýðingu Meg Matich. Að öðru leyti er vísað til eftirfarandi ritaskrár.
Ljóð:
Fiðrildi, mynta og spörfuglar Lesbíu (2008)
Blindir fiskar (2011)
Tími kaldra mána (2013)
Krummafótur (2014)
Veröld hlý og góð (2016)
Tregahandbókin (2018)
Prósaverk og ritgerðir:
Hálmstráin (2008)
Gleymskunnar bók. Bókmenntaritgerðir (2009)
Íslensk lestrarbók (2019)
Þýðingar:
Ezra Pound. Söngvarnir frá Písa (2007)
Tor Ulven. Steingerð vængjapör (2013)
Adelaide Crapsey. Bláar hýasintur (2014)
Ewa Lipska. Neyðarútgangur (2016)
Að lesa ský. Ljóð frá Bandaríkjum Norður-Ameríku (2018)
Lavinia Greenlaw. Kennsl (2019)
Ritstjórn:
Kristján Karlsson. Kvæðaúrval (2009)
Okkurgulur sandur. 10 ritgerðir um skáldskap Gyrðis Elíassonar (2010)
Ingibjörg Haraldsdóttir. La cabeza de la mujer (2011)
Gyrðir Elíasson. Ljóðaúrval (2015)
Francesca Cricelli. 16 ljóð + 1 (2017)
Úrval íslenskra samtímaskálda. The Café Review (2018)