Ástráður Eysteinsson

prófessor

Ástráður Eysteinsson

Í hnotskurn

Hvernig lá leið þín í
almenna bókmenntafræði?

Ég stundaði BA-nám í þýsku og ensku við Háskóla Ísland, og áður en ég lauk því var ég farinn að svipast um eftir meistaranámi þar sem ég gæti hugað áfram að bókmenntum beggja þessara tungumála og jafnvel skyggnst víðar um völl. Þá var nýbúið að hleypa af stokkunum meistaranámsbraut í „Comparative Literature“ við University of Warwick á Englandi og innan hennar var jafnframt lögð áhersla á þýðingafræði. Þangað lá leiðin og það nám opnaði ýmsar gáttir.

Hvað er það áhugaverðasta við almenna bókmenntafræði?

Það áhugaverðasta eru hin óræðu mörk greinarinnar – sú áskorun, opnun og frelsi sem felst í því að geta fengist við og hugsað um margskonar táknmál og texta sem virðast óbundnir hefðbundnum landamærum; að vera laus við of staðbundinn skilning. Síðan gerist það vitaskuld, með vaxandi þekkingu á hugtökum og þjálfun í greiningu, að maður kemst ekki hjá því að fást við alls konar skil, vegamót og staði sem skipta sköpum. Sumir nýta fræðin til að tengja á milli bókmennta og annarra miðla. Sjálfur hef ég verið talsvert í ferðum á milli tungumála og það hefur jafnframt æxlast svo að ég hef gluggað mun meir í bókmenntir móðurmáls míns en til stóð þegar ég hóf háskólanám. Teljist ég utangarðsmaður í þeim reit er það í góðu lagi.

Af hverju er almenn bókmenntafræði sniðugt námsval?

Þessi námsgrein er á erlendum málum gjarnan kennd í senn við orðin „samanburð“ og „bókmenntir“ – og ég held að samspil þessara orða sé mikilvægt. Bókmenntalestur felur í sér margskonar tækifæri til að „lesa“ jafnframt okkar eigið líf og umhverfi. Slíkur „samanburður“, gagnrýninn og skapandi, getur síðan einnig tekið til ólíkra menningarheima, til samleiks fræða og skáldskapar, og til menningarrýni sem er í senn staðbundin og alþjóðleg. Bókmenntir eru hið stóra leiksvið tungumálsins og fyrir tilstilli málakunnáttu og þýðinga getum við nýtt þær til að kynnast heimsbókmenntum og takast á við okkar eigin heimsmynd – en líka til að hugleiða hvernig aðrir miðlar virka, hvort sem um er að ræða hljóð- eða sjónmiðla, og þar með talið þá samfélagsmiðla sem nú virðast stundum stýra veröldinni.

Og raunin er sú að fyrrverandi nemendur okkar hafa fundið sér margvíslegan starfsvettvang þar sem fjölþætt samanburðarsýn hefur komið sér vel – í fjölmiðlun, útgáfustarfsemi, kennslu og víðar á menningarvettvangi. 

Hvert er þitt áhugasvið innan fræðigreinarinnar?

Þau eru mörg og mótsagnakennd, eins og kannski kemur fram í því sem ég hef þegar sagt. Ég hef mest rannsakað nútímabókmenntir en þær hafa þó meðal annars vakið áhuga minn á því hvernig bókmenntir fyrri alda ganga oft í endurnýjun lífdaga með ýmsu móti og af ýmsum ástæðum. Ég hef lagt mig eftir módernisma í bókmenntum og þar með margskonar róttækri máltjáningu og veruleikamiðlun – en sá áhugi er samt tengdur arfbundinni frásagnarlist og raunar einnig ævintýrum og fantasíum. Í áranna rás hef ég talsvert fengist við íslenskar bókmenntir og kannað höfundarverk ýmissa íslenskra höfunda, en enn meiri tíma hef ég þó varið í að þýða útlendar bókmenntir á íslensku – þar fer mest fyrir Franz Kafka – og jafnframt hef ég rannsakað slóðir erlendra höfunda í íslenskum bókmenntaheimi. Þar fer saman áhugi minn á þýðingafræði og viðtökufræðum. Loks hef ég verið áhugasamur um menningarfræði en sú grein átti sitt fyrsta vaxtarskeið, eins og reyndar einnig bæði kvikmyndafræði og þýðingafræði, innan almennu bókmenntafræðinnar við Háskóla Íslands.  

Námsferill

1987

PhD, University of Iowa, bókmenntafræði og þýðingafræði

1982

Doktorsnám í þýskum, enskum og norrænum bókmenntum, Kölnarháskóli

1981

MA-próf, University of Warwick, bókmenntafræði (og þýðingafræði)

1979

BA-próf, Háskóli Íslands, þýska og enska

Kafka

Tilvitnanir

„Hver mælir svo?“ (Roland Barthes)

Jónas Hallgrímsson („Blað skilur bakka og egg“) í samspili við Virginiu Woolf („Nothing thicker than a knife’s blade separates happiness from melancholy“).

“Who’s he when he’s at home?” (Molly Bloom í Ulysses e. James Joyce)

„Þú ert verkefnið. Enginn nemandi nær eða fjær.“

„Fræðilega er hægt að öðlast fullkomna hamingju: Að trúa á hið ógrandanlega í sjálfum sér og ekki að seilast eftir því með erfiðismunum.“

„Frá ákveðnum punkti verður ekki aftur snúið. Hægt er að komast að þessum punkti.“

„Í baráttunni milli þín og heimsins skaltu styðja heiminn.“ 

(Úr kjarnyrðasarpi Franz Kafka)

Hafa samband

Molinn

 

Höllin eftir Kafka

Franz Kafka: Höllin  (upphaf)

Ástráður Eysteinsson og Eysteinn Þorvaldsson þýddu

1

 Koma


Það var áliðið kvölds þegar K. bar að garði. Þorpið var á kafi í snjó. Ekkert sást í hallarhæðina, hún var umlukin þoku og myrkri, ekki svo mikið sem ljósglæta gaf til kynna hvar höllin stóra væri. K. stóð lengi á trébrúnni sem lá frá þjóðveginum að þorpinu, og horfði upp í tómið sem þar virtist vera.

Síðan fór hann að leita sér að náttstað; fólk var enn vakandi í veitingahúsinu, vertinn hafði að vísu ekki herbergi til leigu, þessi síðbúna gestkoma hafði komið honum mjög á óvart og ruglað hann í ríminu en hann kvaðst geta leyft K. að sofa á hálmdýnu í veitingastofunni. K. féllst á það. Nokkrir bændur sátu enn við bjórdrykkju, en hann kærði sig ekki um að ræða við neinn, sótti sjálfur hálmdýnuna upp á háaloft og lagðist fyrir nálægt ofninum. Það var hlýtt, bændurnir höfðu hægt um sig, hann virti þá fyrir sér enn um stund þreyttum augum, síðan sofnaði hann.

En ekki leið á löngu uns hann var vakinn. Ungur maður, klæddur eins og borgarbúi, með leikaralegt andlit, píreygður, með kröftugar augabrúnir, stóð hjá honum ásamt vertinum. Bændurnir voru líka enn á staðnum, sumir höfðu snúið við stólum sínum til að sjá betur og heyra. Ungi maðurinn baðst afar kurteislega afsökunar á því að hafa vakið K., kynnti sig sem son hallarvarðarins og sagði síðan: „Þetta þorp er í eigu hallarinnar, sá sem býr hér eða gistir, býr eða gistir á vissan hátt í höllinni. Engum leyfist slíkt án samþykkis greifans. Þér hafið hinsvegar ekki slíkt leyfi eða hafið að minnsta kosti ekki framvísað því.“ 

K. hafði risið upp við dogg og strokið yfir hárið, hann horfði upp til mannanna og mælti: „Í hvaða þorp hef ég villst? Er þá höll hérna?“

„Já, reyndar,“ sagði ungi maðurinn seinlega, ýmsir í hópnum hristu höfuðið yfir K., „höll herra greifans Westwest.“

„Og verða menn að fá leyfi til að gista?“ spurði K., rétt eins og hann vildi fullvissa sig um að hann hefði ekki dreymt hinar fyrri tilkynningar.

„Leyfi verða menn að hafa,“ var svarið og ungi maðurinn hæddist gróflega að K. með því að rétta út handlegginn og spyrja vertinn og gestina: „Eða þarf annars ekki að hafa leyfi?“

„Þá verð ég að ná mér í slíkt leyfi“ sagði K., geispaði og ýtti af sér ábreiðunni eins og hann hygðist rísa á fætur.

[…]