Um hvað er námskeiðið?

Námskeiðið Kvennabókmenntir tekur fyrir bókmenntir ritaðar af konum frá fyrstu varðveittu heimildum og allt fram til dagsins í dag. Það hefur oft verið rætt um að bókmenntasagan sé saga karlhöfunda og við lesum okkur því í gegnum úrval kvenhöfunda sem hafa verið þátttakendur í og jafnvel haft afgerandi áhrif á bókmenntasögu hins vestræna heims. Við veltum fyrir okkur hvort og hvað þessi verk eiga sameiginlegt og hvort það sé yfirhöfuð hægt (eða réttlætanlegt) að tala um kvennabókmenntir. Við lesum verkin ítarlega og setjum þau í menningarsögulegt samhengi og veltum því fyrir okkur hvað þau geta sagt okkur um kynjabaráttu, hugmyndir um kynhlutverk í aldanna rás, stéttir, kynþátt, kynferði og „konuna“ sem menningarsögulegt fyrirbæri.

Er efni námskeiðsins eitthvað sem þú hefur verið að rannsaka?

Ég vinn mjög mikið með kyngervi, kynferði og hvernig hinsegin fræði og eftirlendufræði geta nýst okkur í að varpa nýju ljósi á verk miðaldahöfunda svo efnið er mér nærstætt.

Hvaða verk verða lesin/verður horft á?

Við lesum verk kvenna allt frá elstu varðveittu brotunum, eins og ljóðum Sappho og síðari tíma höfunda; meðal annars Mary Shelley, Brontë systur, Emily Dickinson, Virginia Woolf, Toni Morrison og fleiri.