Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir

Hvenær útskrifaðist þú og um hvað var lokaritgerðin?

Ég úrskrifaðist árið 1998 og lokaritgerðin mín var um birtingarmyndir kvenna í enskum endurreisnarbókmenntum. Þar var af nógu að taka, sérstaklega eftir öflugt femínískt bókmenntauppeldi hjá Helgu Kress og Guðna Elíssyni. Í náminu varð ég hluti af öflugum hópi nemenda sem höfðu gríðarlega gaman af viðfangsefninu, voru metnaðarfullir, og líklega mjög fullir af sjálfum sér, og við krufðum hverja einustu kenningu, bók, ljóð og fræðimann í öreindir. Eftir útskrift vann ég sem svokallaður aðstoðarframkvæmdastjóri Kaffileikhússins sáluga, sem er mjög fínn titill fyrir þetta stórskemmtilega rótara/húsvarðarstarf sem ég gegndi í raun og veru. Þaðan lá leið á auglýsingastofu en að því loknu söðlaði ég um og fór í meistaranám í menningarfræði við Edinborgarháskóla. Þegar því lauk fór ég beinustu leið í fæðingarorlof, sem ég nýtti reyndar til að taka MBA gráðu við Háskólann í Reykjavík.

Hvernig fannst þér námið, myndir þú mæla með því?

Námið var áhugavert, skemmtilegt og hefur reynst mér mjög gagnlegt, þó ég hafi aldrei starfað sem bókmenntafræðingur og sannarlega ekki farið í námið af praktískum ástæðum eða eftir mikla íhugun. Þannig að ég get mælt með náminu, þó ég myndi líka mæla með því að áhugasamir háskólanemar kynntu sér vel alla möguleika sem þeim standa til boða.  

Hvað ertu að gera í dag og nýtist menntunin í starfi?

Í dag er ég framkvæmdastjóri Almannaróms, sem er miðstöð máltækni og ber ábyrgð á að framkvæma áætlunina Máltækni fyrir íslensku 2018-2022. Markmið máltækniáætlunar er að gera íslensku aðgengilega til notkunar í hugbúnaðarþróun í stafrænum heimi og tryggja þannig að tungumálið lifi áfram. Áður starfaði ég meðal annars í sjö ár sem framkvæmdastjóri hjá Háskólanum í Reykjavík, var framkvæmdastjóri Listahátíðar í Reykjavík, forstöðumaður fjárfestatengsla og markaðsmála hjá Straumi fjárfestingarbanka og markaðsstjóri hjá Borgarleikhúsinu og Deloitte. Ég hef einnig setið á Alþingi, sat í stýrihópi nýsköpunarráðherra um mótun nýsköpunarstefnu fyrir Ísland sem kom út nýverið, er varamaður í bankaráði Seðlabanka Íslands og gengt ýmsum stjórnarstörfum. Menntunin hefur nýst mér í öllum þessum fjölbreyttu störfum, hún þjálfaði hjá mér mikla greiningarhæfileika, getuna til að rökræða og getu til að koma flóknum hugmyndum og hugsunum í orð. Það er og verður verðmætur eiginleiki.