Jóel Enok Kristinsson

Perhaps one did not want to be loved as much as to be understood
~ George Orwell, 1984 ~

Ég hef alltaf „dýrkað“ bækur, kannski mismikið í gegnum tíðina en alltaf nóg til að lesa. Þannig leiddist ég út í BA-nám í almennri bókmenntafræði. Þegar ég er ekki að lesa stunda ég mestmegnis útivist, úti í náttúrunni snýst hugsunin meira um einfaldari hluti eins og öndun og hitastig, og er því ágætis mótvægi við námið. Fallegt útsýni af óspjallaðri náttúrunni skemmir svo ekki fyrir. Hugmyndin með náminu var að læra meira um fræðilegri hliðar bókmennta til hagnýtingar við skrif, spurningin verður hvort að fræðin heilli meira en skrifin, þegar öllu er aflokið. 

Þau námskeið í bókmenntafræðinni sem hafa heillað mig hvað mest er Rökkurmyndaáfangi Guðna Elíssonar, en í honum var fjallað um náin tengsl bókmennta og kvikmynda sem og hversu hjálpleg djúpþekking á afmarkaðri grein fræða getur mótað almenna þekkingu manns og verið hvetjandi í náminu öllu; Framúrstefnuáfangi Benedikts Hjartarsonar en þar lærði ég hvað einlægur áhugi getur verið hvetjandi, áhugi kennarans fleytti manni gegnum námskeiðið og eigin áhugi dró mann gegnum lesefnið. Það var ekki stök stund sem ekki var skemmtileg og fræðandi.


Það sem mér hefur fundist áhugavert í almennri bókmenntafræði er harðsoðni reyfarinn, glæpasögur, framúrstefnuleg- og módernísk verk; en allt fléttast þetta saman í póst-módernismanum sem einskonar gullinsnið bókmenntastefna. Í bókum eins og The Crying of Lot 49 eftir Thomas Pynchon þar sem ráðgátan er ekki bara fyrir sögupersónuna heldur lesandann líka. Menningarlegir Rubix kubbar, þar sem námið inniheldur formúlurnar til að færa réttan lit á réttan stað. Þessi áhugi á krefjandi afþreyingarefni tekur líka til kvikmynda, þar sem námið hjálpar líka; eins og í greiningu kvikmynda á borð við Tenet (2020) og The Man from Earth (2007).