Hrafnhildur Rafnsdóttir

Hrafnhildur Rafnsdóttir

 

Hrafnhildur Rafnsdóttir er 22 ára gömul, fædd og uppalin í Hafnarfirði. Hún útskrifaðist frá Háskóla Íslands með BA-gráðu í almennri bókmenntafræði og ritlist í júní 2020. Hún mun hefja meistaranám í ritlist í haust.

BA-ritgerð hennar nefnist Ástir og hjónabönd í Kantaraborgarsögum: Valdefling miðaldakonunnar

Leiðbeinandi: Sif Ríkharðsdóttir, prófessor

Um ritgerðarskrifin

Þegar ég hóf BA-námið var ég nítján ára og hafði ekki lesið eitt einasta miðaldaverk, að Snorra-Eddu undanskilinni. Á fyrsta árinu mínu neyddist ég til að taka áfanga um áhrifamestu bókmenntatexta sögunnar en þar komst ég fyrst í kynni við Geoffrey Chaucer. Kantaraborgarsögur heilluðu mig vægast sagt upp úr skónum strax á fyrsta ári. Á þriðja árinu mínu fór ég svo í stórkostlegan áfanga sem heitir Miðaldabókmenntir en hugmyndin að ritgerðinni minni kviknaði þar. Markmið mitt með ritgerðinni var að kafa dýpra í sögurnar og greina þær í þaula. Fyrst og fremst vildi ég þó skoða hvernig ástir og hjónabönd koma fyrir í fjórum sögum úr Kantaraborgarsögum.

Sögumennirnir fjórir eru allir með sínar eigin persónulegu skoðanir á hjónabandi og öllum er gefið fullt frelsi til að tjá skoðanir sínar óháð kyni og samfélagslegri stöðu. Í ritgerðinni skoðaði ég meðal annars hvernig mismunandi birtingarmyndir kúgunar og valds koma fram bæði af hálfu karla og kvenna. Mér þótti sérstaklega áhugavert að athuga hvernig konurnar í sögunum fjórum notuðu m.a. kvenleika sinn og slægð til að reyna að ná í völd. Það er ekki algengt að sjá sterka kvenmannsrödd í miðaldaverkum og því lagði ég mikið upp úr því að kynna mér vel Formála og Sögu konunnar frá Bath. Ég lagði þó megináherslu á að finna út hver hinn raunverulegi valdhafi hjónabandsins er í þessum fjórum sögum.

Úrdráttur úr ritgerðinni

Kantaraborgarsögur eftir enska skáldið Geoffrey Chaucer voru skrifaðar undir lok fjórtándu aldar. Verkið segir frá pílagrímum sem eru á leiðinni að gröf Tómasar Beckett. Til að stytta sér stundir ákveða þeir að halda keppni um hver getur sagt bestu söguna. Í þessari ritgerð verður fjallað um fjórar sögur úr verkinu en þær eru Saga konunnar frá Bath, Saga skólamannsins, Saga kaupmannsins og Saga bóndans en einnig verður Formáli konunnar frá Bath tekin fyrir. Þessar sögur eiga það sameiginlegt að fjalla um hjónabönd en megináhersla verður lögð á að finna út hver hinn raunverulegi valdhafi hjónabandsins er í þessum sögum. Ásamt því verður skoðað hvernig birtingarmyndir kúgunar og valds koma fram. Í sögunum má finna margskonar tegundir valds af hálfu karla og kvenna en þar má nefna líkamlegt vald, vitsmunalegt vald og sálfræðilegt vald. Sögumennirnir fjórir eru allir með sínar eigin persónulegu skoðanir á hjónabandi en þeim er öllum gefið fullt vald innan textans óháð kyni og samfélagslegri stöðu. Sögurnar fjórar kanna því allar hliðar hjónabanda, þær jákvæðu, neikvæðu, ónærgætnu og jafnvel þær siðlausu.