Elfa Ýr Gylfadóttir

Hvenær útskrifaðist þú með BA-gráðu og um hvað var lokaritgerðin?

Ég velti því mikið fyrir mér hvað ég ætti að taka mér fyrir hendur eftir stúdentspróf. Ég ákvað að fara eitt ár í almenna bókmenntafræði til að víkka sjóndeildarhringinn og læra eitthvað sem mér fannst reglulega áhugavert. Það fór svo að mér fannst námið svo gefandi að þremur árum síðar útskrifaðist ég með BA-próf í almennri bókmenntafræði árið 1994. Lokaritgerðin fjallaði um fantasíu sem kvenlegan rithátt í bókinni Meistarinn og Margaríta eftir Búlgakov og leiðbeinandi minn var Guðni Elísson sem þá var nýkomin heim úr doktorsnámi frá Bandaríkjunum. Ritgerðin birtist í Torfhildi, tímariti bókmenntafræðinema. 

Hvernig finnst þér námið og myndir þú mæla með því?

Þegar ég var í bókmenntafræðinni var farið að bjóða upp á námskeið bæði í kvikmyndafræði og menningarfræði. Sú breidd sem var að finna í þeim námskeiðum sem stóðu nemendum til boða gerði það að verkum að ég öðlaðist bæði breiðan og fjölþættan kenningarlegan grunn sem ég hef búið að alla tíð síðan. Ég áttaði mig einnig á því á meðan námi stóð að ég hafði sérstakan áhuga á bæði menningarfræði og því hvernig lífssýn og skoðanir fólks mótast t.d. í gegnum fjölmiðla.

Stefnur og straumar í bókmenntum eiga sér samsvörun í stefnum og straumum annarra fræðigreina. Því er BA-próf í almennri bókmenntafræði frábær grunnur til að fá innsýn inn í bæði mannkynssöguna og þær fræðilegu hugmyndir og kenningar sem einkenna ákveðin tímabil sögunnar. Reynsla mín er sú að slík víðtæk þekking er nauðsynleg til að geta greint og skilið okkar eigin samtíma. Það er einnig mikilvægt að minnast á það að í náminu öðlaðist ég mikla þjálfun í textaskrifum auk þess sem námið hvetur til gagnrýninnar hugsunar.

Hvað ertu að gera í dag og nýtist menntunin í starfi?

Í dag starfa ég sem framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, sem er sjálfstætt stjórnvald sem hefur eftirlit með einkareknum fjölmiðlum og Ríkisútvarpinu. Eftir BA-prófið í almennri bókmenntafræði lauk ég prófi í hagnýtri fjölmiðlun við HÍ. Að loknu námi hér heima fór ég til Englands í meistaranám í fjölmiðla- og ímyndarfræðum við University of Kent Canterbury og síðan í meistaranám við Georgetown University í Washington D.C. í fjölmiðla- og fjarskiptafræði. Sá víðtæki kenningarlegi grunnur sem ég fékk í almennu bókmenntafræðinni var frábær til að að byggja á þekkingu í öðrum fræðigreinum.  

Í starfi mínu fæst ég við ólík og margbreytileg verkefni. Á síðustu árum hefur m.a. verið mikil umræða um svokallaða upplýsingaóreiðu og falsfréttir. Ég sit nú í nefnd á vegum framkvæmdastjórnar ESB fyrir hönd Íslands sem m.a. fæst við að greina slíka upplýsingaóreiðu og finna leiðir til að sporna gegn henni. Þá hefur fjölmiðlanefnd unnið að því að upplýsa almenning um þær hættur sem lýðræðinu stafar af upplýsingaóreiðu hér á landi. Í þeirri vinnu hef ég m.a. byggt á þeirri þekkingu sem ég öðlaðist í náminu til að skilja samfélagið og samtímann og af hverju vissir hópar eru móttækilegri fyrir falsfréttum og samsæriskenningum en aðrir. Sá kenningarlegi grunnur og mikilvæga gagnrýna hugsun sem ég þurfti að tileinka mér í BA-náminu hefur reynst frábær til að greina og skilja þær breytingar sem eru að verða á samfélaginu okkar með tilkomu samfélagsmiðla og nýrrar tækni.