Atli Antonsson

Atli Antonsson

Atli Antonsson, doktorsnemi í almennri bókmenntafræði, hefur áður lokið MA prófi í evrópskum bókmenntum við Humboldt háskóla í Berlín og BA prófi í almennri bókmenntafræði með heimspeki sem aukagrein frá Háskóla Íslands. 

Í BA ritgerðinni bar hann saman endursköpun æskuslóðanna í sjálfsævisögum og í meistararitgerðinni skrifaði hann um kvikmyndahandrit sem bókmenntagrein. Í doktorsverkefninu er ætlunin að bregða ljósi á það hvernig nábýlið við eldspúandi fjöll hefur mótað menningu og sjálfsmynd Íslendinga. 

Leiðbeinandi doktorsverkefnisins er prófessor Guðni Elísson.

Doktorsverkefnið er að hluta innblásið af heimildarmyndinni Into the Inferno (2016) þar sem þýski kvikmyndaleikstjórinn Werner Herzog og enski eldfjallafræðingurinn Clive Oppenheimer skoða eldfjöll um víða veröld og spjalla við fólkið í nágrenninu. En um tilgang ferðarinnar segir Herzog í myndinni: „Augljóslega var vísindaleg hlið á ferð okkar, en það sem við vorum raunverulega að eltast við var hin hliðin: töfrarnir, djöflarnir og nýju guðirnir.“ Þeir dvelja lengst við könnun eldfjalla og goðsagna í Indónesíu og Norður-Kóreu, en koma einnig við á Ísland til að fjalla um Heimaeyjargosið, Skaftárelda og lesa úr Völuspá. Í doktorsrannsókninni geng ég líkt og í kvikmyndinni út frá þeirri forsendu að eldfjöll hafi áhrif á hugmyndaheim þeirra sem lifa í nágrenninu og stefni að því að rannsaka nánar sambúð Íslendinga við eldfjöll. Ég reyni að svara því hvernig nábýli Íslendinga við virk eldfjöll hefur mótað sjálfsmynd þeirra og hugmyndir um þjóðerni og sögu síðustu 250 árin, með því að skoða goðsöguleg stef og hugmyndafræði um þjóðerni og manngildishugmyndir í frásögnum af eldgosum sem koma fyrir í sjálfsævisögum, skáldsögum og ljóðum auk efnis úr öðrum miðlum. Ég skoða hvernig þetta birtist á nokkrum tímabilum þar sem eldgosafrásagnir fléttast saman við aðra atburði Íslandssögunnar með það að markmiði að nálgast ákveðna þætti í menningarsögu þjóðarinnar.