Andri M. Kristjánsson

andrim

Andri M. Kristjánsson er doktorsnemi í Almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Áður hefur hann lokið BA- og meistaraprófi frá sama skóla þar sem hann skrifaði m.a. um ljóðagerð Jóhanns Gunnars Sigurðssonar, Sir Gawain and the Green Knight og Mírmanns sögu. 

Doktorsverkefnið fjallar um birtingarmyndir náttúrunnar og efnis í frumsömdu riddarasögunum á Íslandi og hvernig þessir „hlutir“ sem standa utan hins mennska búa sér til rými til athafna í gegnum samtal og samstarf við manninn.

Leiðbeinandi: Sif Ríkharðsdóttir


Í doktorsverkefninu mun ég rannsaka ómennskan (e. non-human) atbeina náttúrunnar í íslensku frumsömdu riddarasögunum og hvernig slíkur atbeini hefur áhrif bæði á riddarasögurnar sjálfar og þau sem skrifuðu og lásu sögurnar. Aðferðafræðin í ritgerðinni byggir á rannsóknum í vistrýni sem og kenningum í efnislegum fræðum, aðferðafræðinni er beitt á frumsömdu riddarasögurnar sem lengi vel hefur verið vanrannsökuð bókmenntagrein. Nálgunin á textann er tvíþætt og felur annars vegar í sér greiningu á atbeina náttúrunnar og efnis innan riddarasagnanna og hvernig slíkur atbeini kemur fram í textanum. Þessi nálgun felur í sér samanburðar rannsókn á völdum riddarasögum þar sem niðurstöðurnar verða túlkaðar bæði út frá bókmenntafræðilegu og menningarlegu samhengi sagnanna. Hins vegar verður litið á náttúruna innan riddarasagnanna og hún greind sem sagna-efni (e. storied matter) sem felur í sér frásagnalegan atbeina (e. narrative agency) en upphafsmenn beggja hugtaka eru Iovino og Oppermann (2014). Til þess að fallast á þá staðhæfingu að efni, í sínum víðasta skilningi, geti búið yfir atbeina er nauðsynlegt að vera opin fyrir þeirri hugmynd að atbeini grundvallist í einhverskonar samstarfi eða samvinnu sem raungerist í gegnum samtal og sambúð mannsins og þess ómennska. Með því að líta á náttúru og efni í frumsömdu riddarasögunum sem sagna-efni er hægt að þróa dýpri skilning á því hvernig þessar einingar framleiða sína eigin merkingu innan bókmenntagreinarinnar og hvaða áhrif það hefur á hin skáldaða heim riddarasagnanna.