Frönsk tilvistarspeki,
frelsi og ábyrgð

Franski heimspekingurinn og rithöfundurinn Jean-Paul Sartre (1905-1980) var einn af forgöngumönnum tilvistarspekinnar á 20. öldinni, ásamt þeim Albert Camus, Simone de Beauvoir og Maurice Merleau-Ponty. Upp úr seinni heimstyrjöld óx þessari heimspekistefnu fiskur um hrygg, raunar svo að það mátti tala um tískufyrirbrigði – og það var ekki síst vegna Sartre. Árið 1945 hélt Sartre fyrirlestur um þessa stefnu, sem hann var í forsvari fyrir, á Club Maintenant í París, þar sem hann skýrði kenningar sínar og svaraði gagnrýni. Ári síðar var efni þessa fyrirlesturs gefið út undir heitinu Tilvistarstefnan er mannhyggja (fr. L’Existentialisme est un Humanisme).

Tilveran er upphaflegri en eðlið

Kjarni tilvistarstefnunnar er sérstaða mannsins og tilvera hans, sem nauðsynlegt er að skoða út frá persónulegri reynslu einstaklingsins. Maðurinn er sá útgangspunktur sem tilvistarspekin miðar við og skilningur á veruhætti hans er grundvöllur fyrir allri frekari þekkingu á heiminum.

„Tilveran er upphaflegri en eðlið,“ er ein frægasta setning Sartre (þó hugmyndina megi rekja til danska heimspekingsins Sören Kierkegaard) og það má segja að hún sé grunnstaðhæfing tilvistarstefnunnar. Hún þýðir einfaldlega að fyrst fæðumst við inn í einhverjar ákveðnar aðstæður og svo gerum við eitthvað úr sjálfum okkur og finnum lífi okkar tilgang. Sartre var trúleysingi og tók undir þá yfirlýsingu Nietzsches að Guð væri dauður. Það hefur þau áhrif að tilgang okkar eða eðli er ekki að finna með vísun í einhvern handanheim, þar sem enginn Guð er til að hugsa það og skapa. Þannig er maðurinn einfaldlega það sem að hann gerir úr sér, en Sartre segir í Tilvistarstefnan er mannhyggja að þetta sé fyrsta lögmál tilvistarstefnunnar.[1]

Frelsi fylgir ábyrgð

Ef að maðurinn á sér ekkert fyrirfram gefið eðli og þarf því að skapa það sjálfur og hugsa, þá er hann þar með orðinn ábyrgur fyrir eigin tilvist. Sartre lætur þó ekki staðar numið þar heldur gengur hann lengra og lýsir því yfir að á sama tíma og við berum ábyrgð á eigin lífi berum við ábyrgð á öllum mönnum. Hér má lesa einskonar vísun eða tengsl við skilyrðislausa skylduboð Immanuels Kant, sem sagði að maður eigi að breyta aðeins eftir þeirri lífsreglu sem maður getur á sama tíma viljað að verði að almennu lögmáli. Á hversdagslegra máli mætti segja að við eigum ávallt að spyrja okkur hvað gerðist ef allir sýndu af sér sömu breytni. Sartre á við svipað þegar hann segir okkar bera ábyrgð á öllum mönnum; þegar við veljum og breytum á ákveðinn hátt erum við á sama tíma að fella jákvæðan siðferðisdóm um þá breytni. Þetta orðar hann sem svo í Tilvistarstefnan er mannhyggja: „Sérhver athöfn okkar sem stuðlar að sköpun þess manns sem við viljum vera, skapar um leið mynd af manninum eins og við teljum að hann eigi að vera.“[2]

Þú hefur ekkert val – þú þarft að velja!

Um athafnir og breytni leit Sartre svo á að maðurinn búi yfir ótakmörkuðu frelsi. Fyrst Guð væri dauður, þá væri raunar allt leyfilegt og maðurinn er dæmdur til frelsis, fyrst að engin fyrirfram skráð siðaboð eða reglur er að finna neins staðar handan sjálfsverunnar. Með þessu á hann við að einstaklingurinn hefur engar afsakanir fyrir breytni sinni og hann getur ekki vísað til neins utan við sjálfan sig sem skýrir tiltekið val. Við erum dæmd til frelsis að því leytinu að okkur er hent inn í heiminn óumbeðið og þar eftir þurfum við að velja og bera ábyrgð.

Sá einstaklingur sem gerir sér grein fyrir þessari tilvistarstöðu mannsins – sér að hann er frjáls til að velja, en beri á sama tíma að taka afleiðingum gjörða sinna – hlýtur að finna fyrir gífurlegri ábyrgðartilfinningu og angist. Aftur á móti telur Sartre að með því að taka ekki ábyrgð á stöðu þinni gerist þú sekur um óheilindi óheilindi (fr. mauvaise foi). Þegar einhver segist ekki geta byrjað á ritgerð vegna þess að hann fær ekki næði er sá hinn sami að skjóta sér undan ábyrgð.

Að hrökkva eða stökkva?

Kenningum Sarte er hægt að finna ýmislegt til foráttu – til dæmis það að hann geri e.t.v. full lítið úr staðverunni (fr. facicité), sem er heild alls þess sem einkennir hlutskipti mannsins. Aftur á móti er einnig auðvelt að finna í þeim mikinn innblástur, þó svo að tilvistarstefnan sé kröfuhörð í garð einstaklingsins. Lífið er í okkar eigin höndum og það er undir okkur komið hvaða tilgang við finnum því. Það sem skiptir máli andspænis angistinni er það hvernig þú ákveður að líta á hana; ætlar þú að standa lamaður frammi fyrir frelsinu og firra þig ábyrgð eða ætlar þú að nota hana sem hvata til að taka stökkið út í óendanlega opna framtíð?

 

Heimildir

Sartre, Jean-Paul. 2007. Tilvistarstefnan er mannhyggja. Páll Skúlason þýddi. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík.

Frekari lestur um kenningar Sartre:

https://plato.stanford.edu/entries/sartre/

https://www.britannica.com/biography/Jean-Paul-Sartre

https://iep.utm.edu/sartre-ex/

[1] Sartre 2007:54

[2] Sama rit: 55