Stefán Óli Bessason

An intellectual says a simple thing in a hard way. An artist says a hard thing in a simple way.
~ Charles Bukowski ~

Ferlegt rekald sem gerir sér ekki fyllilega grein fyrir því hvar það endar nákvæmlega. Ég álpaðist inn í heimspekina með ritlist sem aukagrein og er um þessar mundir rétt rúmlega hálfnaður á þeirri vegferð. Þar áður hafði ég lokið stúdentsprófi af listnámsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri og er uppgjafarnemi í málaralist við Myndlistarskólann í Reykjavík. Þetta nám er hugsað sem einskonar viðbót sem ég vona að gagnist við frekari listsköpun. Þess utan hef ég víðtækan en brotakenndan áhuga á of mörgum hlutum til að útlista hér.

Fram til þessa stendur bókmenntafræðin upp úr af þeim námskeiðum sem ég hef setið, eins góð og hin hafa annars verið. Bókmenntafræðin gerði mér betur grein fyrir þeim möguleikum sem standa til boða þegar tekist er á við skapandi skrif. Mismunandi týpur sögumanna, hugsanlegir heimar, form og stílbrögð ýmiskonar vöktu enn frekari áhuga á skrifum, það opnuðust dyr. Heimspekin er þar að auki nytsamlegur brunnur innblásturs sem er áhugavert að sækja í og reyna að nýta bæði leynt og ljóst.

Uppáhalds bókin mín er sennilega Drykkjumaðurinn (þ. Der Trinker) eftir Hans Fallada, ef ég þyrfti að velja aðeins eina. Að mínu viti er bókin fullkomin tragekómedía, grátbrosleg og áhugaverð stúdía á sálarflækjum einstaklings á heljarþröm, byggð á eigin reynslu Fallada af fíkn og geðveiki. Ég virðist dragast að efni sem hefur eða gæti gerst í alvörunni, hvort heldur sem á við um bækur eða sjónvarpsefni.

Mig langar gjarnan að skeyta saman heimspekinni og skapandi skrifum á einhvern máta, þá kannski eitthvað í ætt við skáldverk tilvistarspekinnar, vangaveltur um manninn og tengsl hans við umheiminn. Þannig þykir mér spennandi að skoða og reifa hugmyndir um mannlegt eðli og allt sem af því leiðir.