4 ljóð

I.

Manstu eftir deginum sem sólin skein?

-Vorum við saman þá?

Nei við þekktumst ekki þá

voru bara saman

á sitthvorum staðnum

undir sólinni bæði

 

II.

Við hlið mér situr tómarúm með freka nærveru

sem maður með ljótan svip

með þögn sinni krefst hann athygli minnar

líkt og sá er starir án svipbrigða

afneiti ég honum tvíeflist hann

 

Ég samþykki þig en gef engan gaum

því inn í mér er brum

sem í kyrrðinni brýtur sér leið

skýst út í heiminn

sem laufgaðar smágreinar

 

Vittu hvort þú þolir að umbera það

vera hér óséður 

á meðan þær kvíslast um mig og svo þig

uns þitt tóma rúm

fyllist ljósi alls sem er og getur orðið

III.

Með árstíðaskiptunum má breyta um ham

losa af sér þann gamla

hik-laust

þó fullkomin óvissa fylgi gjörðinni

því kannski er ekkert undir

eða það sem býr undir

ekki boðlegt fjöldanum

 

Óbærileikinn hið innra

leitar sér leiða út líkt og gröftur í sári

og hefur til þess ýmsa farvegi

anda frá

tala frá

öskra frá

og vera reiður

eða leiður

eða leiðinlegur

eða setjast í líffæri og skemma smá

eða setjast í vöðva og stífna smá

 

Kláðinn er boðberi

hinnar djúpstæðu þarfar

fyrir hamskipti.

og hana klæjar

óstjórnlega

í andann

IV.

Vindurinn hreinsaði borgina í nótt

blés óþarfanum burt

nú á dagurinn leik

 

Upp á náð hans fær mannskepnan annan séns

á að næra anda sinn

göfga tilveru sína og náungans

 

Og kannski, ef vel tekst til

verður minna verka að vinna

fyrir vindinn næstu nótt