Syndaflóðið: Uppáhaldssaga mannkynsins
Við þekkjum flest söguna af syndaflóðinu, þegar Guð lét stórflóð ganga yfir jörðina í refsingarskyni og gjöreyddi lífi á jörðinni vegna synda mannkyns og nýtt betra mannkyn spratt síðan upp. Þjóðsagnafræðingurinn Alan Dundes sagði í bók sinni The Flood Myth (1988) að af öllum goðsögum í heiminum hafi engin önnur fengið jafn mikla athygli í gegnum aldirnar og sagan af syndaflóðinu. Goðsögnin er ein sú útbreiddasta sem þekkist í heiminum en hana má finna í öllum heimshlutum, jafnvel þar sem ólíklegt eða ómögulegt er að flóð eigi sér stað. Enn þann dag í dag höldum við áfram að segja þessa sögu, en hvers vegna?
Mannkynið hefur sagt söguna af syndaflóðinu í fleiri þúsundir ára. Elsta söguljóð heimsins, Gilgameskviða, sem var ritað í Mesópótamíu um árið 2100 f.Kr. inniheldur meðal annars söguna af syndaflóðinu. Óvíd skrifaði einnig söguna af syndaflóðinu í meistaraverki sínu, Ummyndunum, um árið 8 e.Kr. en þekktasta frásögnin er óneitanlega sú sem er í Gamla Testamentinu og eru flestar sögur sem við segjum í dag af syndaflóðinu byggðar á sögunni af Nóa og örkinni hans.
Við höldum ótrauð áfram að segja söguna af Nóa en fjölmargar kvikmyndir byggðar á goðsögninni af syndaflóðinu hafa verið gerðar í gegnum árin. Kvikmyndir eins og Noah (2014) og The Ark (2015) eru beinar endursagnir af sögunni í Gamla Testamentinu en sem dæmi setur myndin 40 Days and Nights (2012) söguna í nútímabúning. Hið sama má segja um kvikmyndina Evan Almighty (2007) sem gengur þó skrefinu lengra og gerir goðsögnina að gamanmynd þar sem enginn trúir að flóðið muni eiga sér stað, ekki einu sinni Evan sjálfur sem fær, rétt eins og Nói, viðvörun frá Guði.
Sagan hefur einnig verið sögð í formi teiknimynda. Í Fantasia 2000 (1999) fer Andrés Önd með hlutverk Nóa og í myndinni VeggieTales: Noah‘s Ark (2015) eru það grænmeti og ávextir sem ferja dýrin í örkina. Þýska teiknimyndin Stowaways on the Ark (1988) segir söguna af syndaflóðinu frá sjónarhorni timburmaðka sem verða óvart laumufarþegar á örkinni og Ooops! Noah Is Gone… (2015) segir frá ævintýrum nokkurra dýra sem missa af örkinni.
Þrátt fyrir ólíkar endursagnir er almenn túlkun goðsagnarinnar að flóðið tákni nýtt upphaf eða annað tækifæri en eins og Dundes segir í fyrrnefndri bók sinni er flóðið myndhverfing fyrir endurfæðingu. Mætti því segja að goðsagan sé um draum mannsins á möguleikanum á endurlausn og endursköpun. Jafnframt er það nokkuð sennilegt að við höldum upp á goðsöguna þar sem hún sýnir þrautseigju mannsins og hina mannlegu lífsþrá enda er það eitthvað sem við eigum sameiginlegt með forfeðrum okkar og getum verið stolt af.