Um hvað er námskeiðið?
Námskeiðið fjallar um tvo af þekktari höfundum miðalda, hinn ítalska Giovanni Boccaccio og Geoffrey Chaucer sem vann og bjó í London á fjórtándu öld. Chaucer hefur að öllum líkindum komist í kynni við verk Boccaccio og því áhugavert að lesa verkin þeirra saman og íhuga hvað þau geta sagt okkur um menningarheim þessara tveggja höfunda, þar með talið Flórens, Napólí og Bretland. Báðir lifðu í gegnum Pláguna miklu og þekktasta verk Boccaccio, Tídægra (Decamerone), er einmitt sviðsett í plágunni og lýsir því hvernig miðaldamenn tókust á við þessa ógn – eitthvað sem við getum öll tengt við þessa dagana. Við lesum því nokkur verk þeirra og berum saman hvernig þessir höfundar takast á við sama efni, t.d. hvað varðar stöðu kynjanna, kynhlutverk og hugmyndir um kynlíf, mannleg samskipti, húmor, afleiðingar plágunnar og ýmislegt annað.
Er efni námskeiðsins eitthvað sem þú hefur verið að rannsaka?
Ég hef alltaf haft áhuga á menningarmótum, enda eru þau mjög frjósamur staður fyrir bókmenntasköpun. Það er því mjög athyglisvert að geta einblínt á þessa tvo höfunda þar sem annar er mögulega undir áhrifum af hinum og íhuga hvað það getur sagt okkur um textatengsl, menningarheima og -strauma og um miðaldir og hvaða lærdóm við getum dregið af því innan okkar eigin menningarheims.
Hvaða verk verða lesin/verður horft á?
Við lesum meðal annars Tídægru eftir Boccaccio, Kantaraborgarsögur eftir Chaucer og söguna af ástarsambandi Troilus og Criseydu á tímum falls Trójuborgar eins og þeir gera henni báðir skil.
Tídægra hefur kannski sjaldan verið eins tímabær eins og núna þegar við erum sjálf að upplifa það hvernig samfélagsumgjörðin okkar getur breyst þegar við stöndum frammi fyrir heimsfaraldri og hvaða áhrif óttinn og óvissan hafa á okkur og samfélagið okkar. Það verður því athyglisvert að lesa hana með nemendum í haust þegar innihald hennar og umgjörð munu væntanlega tala til okkar á anna hátt en hún hefur gert áður.