Magnús Örn Sigurðsson

Magnús er með BA-próf í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og meistarapróf frá íslensku og menningardeild í umhverfis- og auðlindafræðum en ritgerðir vegna beggja voru unnin undir handleiðslu Dr. Björns Þórs Vilhjálmssonar.

Magnús er doktorskandídat í félags- og menningarmannfræði við Rice-háskóla í Houston og hefur hlotið meistaragráðu í þeirri grein sem hluti af doktorsnáminu. Doktorsrannsókn Magnúsar er etnógrafía af stofnanamenningu við Loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna sem hefur aðsetur í Bonn í Þýskalandi. Hún snýr sérstaklega að embættismönnum og sérfræðingum sem þjónusta samningaviðræður og stefnumótun á alþjóðasviði loftslagsmála og sköpun merkingar með afurðum og ferlum skriffinnsku.

Ég held að ég hafi upphaflega verið að velja á milli þess að fara í BA-nám í líffræði eða bókmenntafræði og ég man þess vegna hvað ég varð spenntur þegar ég tók grunnáfangann um stefnur og strauma í bókmenntafræðum á fyrsta ári og sá á kennsluskránni að það var heill tími helgaður einhverju sem kallaðist vistrýni (e. ecocriticism). Slíkar kenningar snúast um að lesa samband manns og náttúru í textum út frá verndarsjónarmiðum og þeim manngerðu umhverfisvandamálum sem við glímum við í samtímanum.

Ég endaði á að skrifa BA-ritgerð um vinsæla bandaríska skáldsögu, Freedom eftir Jonathan Franzen, sem fjallar um umhverfislögfræðing sem hefur miklar áhyggjur af loftslagsbreytingum. Í ritgerðinni sem ber titilinn „Frelsi til að fjötra náttúruna“ ræði ég hvernig sagan varpar ljósi á ólík viðhorf til umhverfisins og setur fram gagnrýni á einstaklings- og markaðsmiðaða túlkun á frelsishugtakinu í Bandaríkjunum í ljósi loftslagsbreytinga.

Í meistararitgerðinni, „The We Can Solve It Narrative“, hvarf ég frá greiningu á bókmenntatexta og tók þess í stað stutt bandarísk myndskeið (af Youtube og Vimeo) frá stjórnmálaflokkum, fyrirtækjum og umhverfissamtökum um viðleitni þeirra í loftslagsmálum. Ég hélt mig við sjónarhorn vistrýni og skrifaði gagnrýni á nýfrjálshyggju í ljósi þess hvernig slík hugmyndafræði matreiðir viðbrögð manna við loftslagsbreytingum. Síðar umbreytti ég efni meistararitgerðarinnar í fræðigrein fyrir þemahefti Ritsins um loftslagsbreytingar, frásagnir og hugmyndafræði en hér að neðan má finna stutt brot úr greininni.

[S]ú aukna athygli sem málefnið hefur fengið, frá því að fjórða skýrsla vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna kom út árið 2007, einkennist af framleiðslu á vísindalega vafasamri frásögn um að tækni geti, því sem næst ein og sér, leyst loftslagsvandann. Í þessari grein verður þessi lausnamiðaða frásögn ekki einungis túlkuð sem birtingarmynd nýfrjálshyggju heldur enn fremur sem birtingarmynd áframhaldandi afneitunar á loftslagsbreytingum. Ég legg hér út af orðræðugreiningum Guðna Elíssonar frá árunum 2007– 2011 en það sem ég kýs að kalla lausnarfrásögnina hefur hann nefnt lausnamiðaða orðræðu eða lausnamiðaða túlkun á loftslagsbreytingum og greint sem eitt afbrigði afneitunar. Breytingin sem hefur orðið á lausnarfrásögninni á síðastliðnum árum er frá því að vera leið til þess að gera beinlínis lítið úr loftslagsbreytingum, að „[h]ægt verði að bjarga öllu þegar og ef síga fer á ógæfuhliðina með nýjungum í tækni og bættum reglugerðum“(Elísson 2011, bls 98) til þess að gera óbeint lítið úr vandanum með því að viðurkenna alvarleika málsins en framsetja einfaldar lausnir við honum. Slíkur mótsagnakenndur málflutningur hallar á sín eigin skilaboð um alvarleika málsins, því sama hversu alvarlega staðan er framsett, ef vandinn er sagður leysanlegur er hann fyrst og fremst leysanlegur.

(Magnús Örn Sigurðsson, „‚Ýttu á hnappinn. Bjargaðu hnettinum‘. Frásagnir, nýfrjálshyggja og villandi framsetning loftslagsbreytinga“, Ritið, tölublað 1, árgangur 16, Hugvísindastofnun, Reykjavík, 2016, bls. 39.