Sólrún Harpa Sveinbjörnsdóttir

„Because when you are imagining, you might as well imagine something worth while.“
~ Lucy Maud Montgomery, Anne of Green Gables. ~

Ég er þýðingafræðingur, bóka- og safnvörður, mamma, lestrarhestur, útsaumari, bakari og sérleg áhugamanneskja um kvöldgöngur á sumrin. Ég bý í litlu piparkökuhúsi í sveit fyrir norðan og meðfram því að sinna fjölskyldu, vinnu og ýmsum (yfirleitt skammlífum) áhugamálum, þá er ég nemandi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Ég byrjaði háskólaferilinn í almennri bókmenntafræði þar sem ég tók m.a. námskeið í bókmenntum sem gerast í stríði. Svo ákvað ég að nota árið mitt í bókmenntafræði sem aukagrein og færði mig yfir í enskudeildina. Ég lagði áherslu á enskar bókmenntir en náði einnig að flétta saman við það nokkrum áföngum um bókmenntaaðlaganir. Í MA-náminu mínu einbeitti ég mér að feminískri þýðingafræði. Að námi loknu gerði ég nokkrar tilraunir til þess að starfa sem þýðandi en þurfti að lokum að sætta mig við að það færði mér ekki vott af ánægju. Þegar ég vann að þýðingum var ég stöðugt að hugsa um hvernig ég hefði viljað ritstýra frumtextanum og það leiddi mig hingað í ritstjórn.

Ég er með orð og texta á heilanum – og hef alltaf verið þannig. Mitt helsta áhugamál er lestur og þegar ég var yngri, þá skrifaði ég einnig gífurlegt magn af sögum og ljóðum. Sjálfsgagnrýnin kom þó aðeins upp á milli mín og skriftanna þegar ég eltist en lesturinn hefur haldist stöðugur alla mína ævi. Ég hef unnið á bókasafni í nokkur ár og reyni því að lesa fjölbreytt efni. Mest les ég þó skáldsögur og skiptist lesturinn oft svolítið í tímabil. Í nokkrar vikur les ég kannski bara sænska krimma. Í tvo mánuði þar á eftir les ég breskar skvísusögur. Þaðan færi ég mig ef til vill yfir í sögulegar skáldsögur sem gerast á Íslandi og síðan í bandarískar nútímabókmenntir. Á hverju ári les ég Jane Eyre (á veturna) og The Gold Finch eftir Donnu Tartt (á sumrin). Ef ég tek ástfóstri við bók, þá les ég hana á hverju ári.

Í raun er ég tímabilsmanneskja og fer svolítið ýkt í það allt saman. Ég tek tímabil þar sem ég hlusta bara á Phoebe Bridgers og ekkert annað í marga mánuði. Ég tek tímabil þar sem ég horfi bara á gamanþætti sem ég hef séð ótal sinnum áður – 30 Rock, Veep, Parks and Rec, It‘s Always Sunny in Philadelphia, Fleabag, Black Books. Svo fæ ég nóg af því og færi mig yfir í dramatískar seríur, oftast frá HBO. Ég get þó alltaf horft á The Great British Bake-Off – ef ég á eitthvað nýbakað.

Ég sæki mest af minni orku í náttúruna í kringum mig. Kvöldgöngur á sumarkvöldum meðfram ánni minni þar sem ég get andað að mér tærasta lofti í heimi og annað hvort hlustað á fuglana eða þátt af This is Actually Happening hlaðvarpinu er það sem gefur mér kraft til þess að þrauka í gegnum allan snjóinn á veturna. Að horfa á strákinn minn velja sér bók sjálfur og lesa hana í rólegheitum er besta stund lífs míns og ég fæ að upplifa hana nokkrum sinnum á dag. Sterkur kaffibolli og stór krossgáta gerir einnig mikið fyrir sálina.

Ég valdi tilvitnun úr Önnu í Grænuhlíð en sú bók er fyrsta bókin sem raunverulega greip mig. Ég var nýbúin að læra að lesa og laumaðist inn í herbergi annarrar eldri systur minnar. Ég renndi í gegnum bækurnar í hillunni hennar og þessi litla, græna bók með mynd af rauðhærðri stelpu á kápunni greip mig. Sú hrifning er enn til staðar og sannar það hversu mikil áhrif bókmenntir og orð geta haft á líf okkar.