Sigríður Inga Sigurðardóttir
Ætli uppáhaldsspakmælið mitt sé ekki:
„Engin veit sína ævina fyrr en öll er“, en það er lýsandi fyrir mitt lífshlaup
Ég heiti Sigríður Inga Sigurðardóttir og er meistaranemi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Ég er með BA-próf í þjóðfræði með þýsku sem aukagrein frá HÍ, auk þess sem ég lauk námi í leiðsögn frá EHÍ. Tími fyrir áhugamál er af skornum skammti en ég hef yndi af útivist og fjallgöngum og finnst gaman að ferðast og læra eitthvað nýtt. Undanfarna tvo áratugi hef ég að mestu unnið við blaðamennsku en á síðasta ári skipti ég tímabundið um starfsvettvang og var flugfreyja hjá Icelandair. Ég stefni að því vinna áfram við blaðamennsku og skrif.
Á vorönn sat ég tvö áhugaverð námskeið, Miðlun í hljóðvarpi og hlaðvarpi og Ritstjórn og hönnun prentgripa. Við fengum heimsóknir frá rithöfundum, bókaútgefendum og þáttargerðafólki, sem var mjög hagnýtt og veitti mér innsýn í gerð útvarpsþátta og bókaútgáfu.
Ég les töluvert en þær bækur sem eru í uppáhaldi eru æviminningar Sigurðar Pálssonar; þríleikurinn Minnisbók, Táningabók og Bernskubók. Þær eru ljóðrænar, bráðfyndnar og skemmtilegar. Bækurnar komu mér ánægjulega á óvart því ég vissi ekki að Sigurður væri eins mikill húmoristi og raun ber vitni. Lýsingar hans á lífinu í Reykjavík og París eru eftirminnilegar og sumar senur í bókinni gleymast seint, eins og þegar hann fer að vinna sem pikkaló á Hótel Sögu. A Fortune-Teller told me eftir Tiziano Terzani kemur líka í hugann en hún er í senn ævisaga og ferðabók. Terzani er ítalskur blaðamaður sem var lengi búsettur í Asíu og var mikið á faraldsfæti. Eftir að spámaður varar hann við að fljúga, því þá muni hann farast í flugslysi, ákveður hann að nota aðrar leiðir til að komast á milli landa. Sjálf bjó ég í Singapúr um tveggja ára skeið og fékk tækifæri til að ferðast til nokkurra af þeim löndum sem Tiziano fjallar um. Það vekur upp góðar minningar að lesa þessa bók.
Eftirlætisþættirnir mínir eru Krúnuleikarnir (e. Game of Thornes) sem ég horfði á í fyrravetur. Það tók nokkur ár að fá mig að skjánum til að horfa á þá en eftir fyrsta þátt varð ekki aftur snúið. Þættirnir eru ófyrirsjáanlegir, framvindan kemur sífellt á óvart og engin persóna er algóð eða alvond. Þeir íslensku þættir sem ég fylgist með eru Kiljan, Kastljós og Landinn því ég hef áhuga á bókum, fréttum og fólki.
Í náminu langar mig að leggja áherslu á að læra meira á vefinn og verða sjálfbjarga að búa til vefsíður og ritstýra þeim. Mig langar að stofna mitt eigið fyrirtæki, sem býr til vefsíður fyrir lítil fyrirtæki.