Nýjar stefnur og straumar í bókmenntarýni:

Vistrýni, hinsegin fræði, tilfinningar og minni

Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Um hvað er námskeiðið?

Námskeiðinu er ætlað að leyfa nemendum að vinna með fræðikenningar í „praktísku“ umhverfi, þ.e. að þjálfa okkur í að lesa, beita og nýta fræðikenningar við lestur og greiningu bókmennta. Fræðistefnur eða kenningar geta verið mjög óhlutstæðar og torskildar svo markmiðið er að vinna náið með nemendum og lesa valda fræðitexta náið saman og að leyfa nemendum að spreyta sig svo á því að beita kenningunum á texta að eigin vali. Námskeiðið verður því mjög mikið í formi samvinnu þar sem við erum að vinna okkur í gegnum nokkrar af nýjustu og spennandi stefnum í bókmenntafræðum og prófa okkur áfram í að beita þeim á texta.

Þær kennistefnur sem teknar eru fyrir hverju sinni breytast ár frá ári þar sem við miðum við að taka fyrir bæði grunnfræðikenningar og -texta sem gagnast okkur alltaf sem og nýjar og spennandi fræðilegar nálganir.