Nína Rannveig Daðadóttir
Nína Rannveig er með BA-próf í bókmenntafræði. Ritgerðin hennar nefnist “Bókmenntaverkið á Twitter” og fjallar um hvernig bókahöfundar hegða sér á samfélagsmiðlum, þá sérstaklega þegar það kemur að því að ræða verk þeirra. Í nýju umhverfi samfélagsmiðla á seinustu árum hefur opnast nýr vettvangur fyrir höfunda og lesendur til að ræða verk og skoðanir sem eru mun aðgengilegri en hefur áður þekkst
Leiðbeinandi: Kjartan Már Ómarsson
Um ritgerðaskrifin:
Þegar ég byrjaði í bókmenntafræði í Háskóla Íslands var ég ekki viss hvort að það nám væri fyrir mig eða ekki. Þá hafði ég áður reynt og mistekist að vera í námi í stjórnmálafræði og hafði því litla trú á mér. Í dag sé ég að þetta var besta ákvörðun lífs míns að fara í þetta nám. Ég hef ekki aðeins lært um bókmenntir, heldur hef ég líka fengið að læra um samfélagsmiðla, kvikmyndir og samspil þessara hluta og samfélagsins.
Lokaritgerðin mín ber titilinn “Bókenntaverkið á Twitter” en þar skoða ég hvernig höfundar í nútímanum geta og eru að nota samfélagsmiðla til að ræða efni bóka sinna og jafnvel reyna að breyta einhverjum hluta verksins mörgum árum eftir útgáfu. Innblásturinn fyrir ritgerðina kom frá J. K. Rowling, höfundi Harry Potter bókanna, en hún hefur verið umdeild fyrir það hvernig hún ræðir söguheim sinn á samfélagsmiðlum. Ritgerðina skrifaði ég undir leiðsögn Kjartans M. Ómarssonar, en sérþekking hans á hinum ýmsu höfundakenningum komu sér mjög vel þegar kom að skrifa ritgerðina. Þar sem ég hafði tekið fjölmiðlafræði sem aukafag samhliða bókmenntafræðinni tókst mjög vel til í að taka saman höfunda og skoða notkun þeirra á samfélagsmiðlum. Notast var við kenningar fræðimannanna Wolfgang Isers, Michel Foucault, Roland Barthes og Arjun Appadurai í skrifum ritgerðarinnar.
Fyrir þá sem ekki hafa fylgst með umdeildum ummælum J. K. Rowling á samfélagsmiðlum gæti þetta án efa virkað sem furðulegt val á ritgerðarefni. Skiptir það í raun einhverju máli hvað höfundurinn hefur að segja um verk sitt þegar það er útgefið og komið í hendur lesenda? Þetta byrjaði allt þegar Rowling lýsti því yfir að Albus Dumbledore væri samkynhneigður og að hann og illmennið Gerald Grindelwald hafi átt í ástarsambandi fyrir atburði bókanna. Þetta fór fyrir brjóstið á mörgum lesendum bókanna og áhorfanda kvikmyndanna en ekki af því að þeir voru á móti því að hafa samkynhneigða persónu í sögunni heldur vegna þess að það var ekkert sem benti til þess að Dubmledore væri samkynhneigður í verkunum.
Mörgum fannst að það væri ekki undir henni komið að ákvarða kynhneigð persónanna þegar verkin voru útgefin. Ásamt því að lýsa yfir samkynhneigð Dumbledores hefur hún fullyrt að það hafi verið nemandi við Hogwarts skólann sem var gyðingur (persóna sem kom aldrei fram innan söguheimsins) og reyndi að stjórna því hvernig lesandinn ætti að túlka persónuna Severus Snape og að það væru engin skólagjöld við Hogwarts skólann. Markmið ritgerðarinnar var ekki að taka afstöðu til þess hvort Dubmledore væri samkynhneigður eða ekki, heldur að skoða það hvort að höfundurinn ætti að fara á samfélagsmiðla og setja fram slíkar fullyrðingar.
Annar höfundur sem er gríðarlega frægur í dag er John Green sem er algjör andstæða við Rowling en hann ræðir aldrei efni bóka sinna eftir að þær eru gefnar út af því að hann telur að eftir að þær eru komnar í hendur lesendans þá eigi lesandinn að túlka hana án þess að þurfa að taka skoðanir höfundarins um bókina til greina. Þrátt fyrir að vera oft spurður um hvað gerist við persónur verka sinna eftir að bókinni er lokið þá neitar hann alltaf að svara. Það hefur að sjálfsögðu alltaf verið til vettvangur sem gerir höfundum kleift að ræða bækur sínar eftir útgáfu alveg frá því að við fórum að gefa út bækur en með tilkomu samfélagsmiðla er allt í einu orðið gríðarlega auðvelt fyrir höfundinn að hafa bein samskipti við lesendann en það hefur orðið til ákveðið rými þar fyrir sameiginlegt ímyndunarafl ákveðins hóps sem kemur saman og skapar t.d. aðdáendaskáldskap (e. Fan fiction). Höfundurinn tekur að sér nýtt hlutverk þegar hann fer opinberlega að ræða þessa hluti líkt og Rowling hefur gert, en það getur verið hlutverk lesendans, áhorfandans eða jafnvel gagnrýnanda.
Kjartan náði að hjálpa mér gríðarlega vel við að koma hlutum á blað á skikkanlegan máta og ritskoða þar sem ég var farin að fara langt fyrir utan efnið og heilt yfir voru skrifin eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert. Þarna fékk ég tækifæri til að finna eitthvað sem vakti mikinn áhuga hjá mér og kafa djúpt í efnið með litlum takmörkunum. Þegar ég hóf nám við Háskólann var ég alltaf frekar smeyk við að byrja þessi skrif en eftir að hafa farið í gegnum þetta ferli með alveg frábæran leiðbeinanda get ég ekki beðið eftir því að fara að skrifa meistararitgerðina þegar að því kemur.
Útdráttur úr BA-ritgerðinni “Bókmenntaverkið á Twitter”:
Í þessari ritgerð er skoðað hvernig bókahöfundar hegða sér á samfélagsmiðlum þá sérstaklega þegar það kemur að því að ræða verk þeirra. Sérstaklega er skoðað hvernig J. K. Rowling hefur rætt efni verka sinna, Harry Potter og Fantastic Beasts and Where to Find Them. Notast er við kenningar Michel Foucault og Roland Barthes um „höfundinn“, ásamt kenningum Wolfgang Isers og Gerard Genette um hvernig við lesum bókmenntaverk. Í nýju umhverfi samfélagsmiðla á seinustu árum hefur opnast nýr vettvangur fyrir höfunda og lesendur til að ræða verk og skoðanir sem eru mun aðgengilegri en hefur áður þekkst. Með miðlinum og gagnagrunninum Goodreads geta höfundar og lesendur til dæmis komið saman og rætt bækur og gefið þeim gagnrýni, annars staðar hafa aðdáendur ákveðinna verka komið saman og skapað sinn eigin skáldskap byggðan á verkum annarra. Kenningar mannfræðingsins Arjun Appadurai um ímyndunarafl og hvernig það hefur orðið að sameiginlegri eign samfélagsins frekar en eitthvað sem á heima hjá einstaklingum eru notaðar til að útskýra slíkan skáldskap. Ásamt því er vald höfundarins skoðað og réttmæti þess að höfundurinn notist við samfélagsmiðla til að breyta efni verks síns eftir útgáfu þess. Eins og kenning Foucault um nafn höfundarins þá hefur höfundanafnið sjálft ákveðið vald og út frá því er hægt að álykta að höfundurinn hefur meira vald á samfélagsmiðlum til að breyta og tala um verkið sitt en aðrir. Rýnt er í mismunandi hlutverk sem höfundurinn tekur að sér þegar hann fer á samfélagsmiðla og ræðir verkin sín, t.d. sem aðdáandi og gagnrýnandi eigin verka. Lesandinn sjálfur verður að stjórna hvaða vald hann vill gefa höfundinum yfir textanum en það má þó ekki afneita valdi höfundarins yfir honum.