Maríanna Clara Lúthersdóttir

Ég útskrifaðist með BA-gráðu árið 2009 og svo með meistaragráðu 2012. BA-ritgerðin fjallaði um hina ógiftu konu í verkum og lífi Jane Austen og meistararitgerðin fjallaði um birtingarmyndir kvenna og minnihlutahópa í barnaefni með áherslu á myndir Pixar og Disney. Ritgerðirnar voru báðar mjög skemmtilegar í vinnslu og bæði vinnubrögðin sem ég þurfti að tileinka mér við ritun þeirra, sem og efnið sjálft, nýtist mér enn í dag.

Námið í bókmenntafræðinni er mjög fjölbreytilegt og skemmtilegt – allt frá kúrsum í fornaldarbókmenntum til hryllingskvikmynda og nýtti ég mér þennan fjölbreytileika til hins ýtrasta. Auðvitað velur fólk kannski fyrst og fremst eftir eigin áhugasviði en einnig getur verið gaman að kasta sér stöku sinnum út í djúpu laugina og prófa að kynna sér eitthvað sem maður þekkir lítið sem ekkert til. Það er einnig mikill kostur að nemendur geti tekið námið á sínum hraða – ég tók til dæmis ekki námslán heldur vann með náminu og kláraði meistaragráðuna á rúmum tveimur árum sem hentaði mér mjög vel. Ef fólk á þess kost held ég líka að það væri mjög gaman að fara sem skiptinemi hluta tímans. En jafnvel þótt skiptinám gangi ekki upp er námið í skólanum engu að síður skemmtilegt og það væri eiginlega draumur að geta tekið eitt námskeið á önn ævina á enda!

Ég er einnig með BA-gráðu sem leikkona og hef mikið verið að leika síðustu ár en þó alltaf unnið meðfram því í verkefnum tengdum bókmenntum. Með námi vann ég í bókabúðum og undanfarið ár hef ég starfað sem verkefnastjóri bókmennta á Borgarbókasafninu. Sem bókmenntafræðingur hef ég rætt við höfunda, skrifað fjölda dóma og umfjallana um bækur fyrir tímarit, dagblöð og útvarp og sit í stjórn Bókmenntahátíðar í Reykjavík. Nú er ég að fara að taka við starfi dramatúrgs við Borgarleikhúsið og þar er ég þess fullviss að nám mitt muni koma að miklu gagni.

Bókmenntafræði er fjölbreytt og víðtækt nám sem tekur til mismunandi menningarheima og ólíkra tíma. Bókmenntatextar eru jafn ólíkir og þeir eru margir og á vissan hátt eru þeir lykillinn að mennskunni. Þetta er vinna með texta, en textarnir snúast fyrst og síðast um manneskjur – þeir eru skrifaðir af fólki og fyrir fólk og því finnst manni stundum eins og bókmenntafræðinni sé ekkert mannlegt óviðkomandi. Það er kannski ein ástæða þess að hún er jafn heillandi og raun ber vitni.