Lovísa Árnadóttir

Hvenær útskrifaðist þú og um hvað var lokaritgerðin þín? 

Ég útskrifaðist árið 2008 og lokaritgerðin mín fjallaði um vondar kvenpersónur í barnabókum Roalds Dahl. Ég elska góðar barnabækur og hafði gaman að því að vinna að þessari ritgerð, en myndi í dag endurskrifa hana og betrumbæta svo um munar.

Hvernig fannst þér námið, myndir þú mæla með því?

Námið var alveg ótrúlega skemmtilegt. Það er fjölbreytt og snertir á svo mörgum kimum samfélagsins, sem gerir það svo gagnlegt. Það opnar huga manns fyrir mismunandi viðhorfum, skoðunum og breytilegri menningu, æfir mann í gagnrýnni hugsun og að skynja það sem liggur á milli lína. Ég myndi svo sannarlega mæla með þessu námi og sérstaklega mæli ég með því að taka hluta af því sem Erasmus skiptinemi. Ég var svo heppin að fá að læra við University of Leeds, sem þykir einn sá fremsti á sviði enskra bókmennta, og þar sá maður hvernig fyrirmyndarkennsla í bókmenntafræði fer fram með áherslu á þátttöku nemenda í litlum umræðuhópum. Það er eitthvað sem myndi gera gott nám hér heima enn betra.

Hvað ertu að gera í dag og nýtist menntunin í starfi?

Mér er mjög minnisstætt svar eins kennarans míns við spurningunni um við hvað bókmenntafræðingar störfuðu eiginlega. Hann sagði að bókmenntafræðingar gætu starfað hvar sem er, gott fólk með góðan grunn í námi gæti fengið hvaða vinnu sem er. Þetta hefur aldeilis reynst rétt. Í dag starfa ég í samskiptamálum í orku- og veitugeiranum og nýtist námið í bókmenntafræðinni mjög vel ásamt því sem ég bætti við mig síðar, MA í blaða- og fréttamennsku. Ég finn að áhugi minn á bókmenntum og fræðileg undirstaða hjálpar mér að vinna með og skilja texta og ég hef góða undirstöðu í menningu og manneskjunni, ef svo má segja, í gegnum þá kúrsa sem ég tók í náminu. Sem skiptir miklu máli þegar maður starfar við samskipti.