Hvenær útskrifaðist þú og um hvað fjallaði lokaritgerðin þín?

Ég útskrifaðist með BA-gráðu í almennri bókmenntafræði, með ritlist sem aukagrein frá Háskóla Íslands 2006 og síðan með meistaragráðu í ritlist árið 2016. Áður hafði ég lokið prófi í grafískri hönnun frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1992. Lokaritgerð mín í bókmenntafræði fjallaði um samspil mynda og texta í myndabókum. Hún birtist í breyttri útgáfu í TMM 2006. Ég hef líka haldið nokkra fyrirlestra um efnið m.a. á Mýrinni – barnabókmenntahátíð í Norræna húsinu 2016. BA-gráðan í bókmenntafræði gerði mér mögulegt að sækja um meistaranám í ritlist. Lokaverkefni mitt í ritlist var handrit að barnabók. Bókin Úlfur og Edda: Dýrgripurinn kom út 2016 og var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna, Barnabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, In Other Words verðlaunanna og Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Vestnorræna ráðsins.

Hvernig fannst þér námið, myndir þú mæla með því?

Ég mæli hiklaust með námi í bókmenntafræði. Námið veitir góða innsýn í ólíkar stefnur í bókmenntum, stuðlar að sjálfstæðri hugsun, þjálfar hæfni til að greina aðalatriði frá aukaatriðum og eykur ritfærni. Úrval námskeiða er þónokkuð en mætti auðvitað vera meira. Áfangarnir sem ég valdi voru allir áhugaverðir og kennarar með yfirgripsmikla þekkingu. Ritgerðaskrif veittu mér sjálfstraust í að tjá skoðanir mínar, rökstyðja þær og taka afgerandi afstöðu. Áhersla á nærrýni og fræðimennsku hefur gagnast mér vel, bæði við skrif og kennslu. Skiptinám í bókmenntafræði við Kaupmannahafnarháskóla var frábær viðbót.

Hvað ertu að gera í dag og nýtist menntunin í starfi?

Ég er sjálfstætt starfandi rithöfundur, teiknari og kennari. Námið hefur nýst mér í öll þessi störf. Bakgrunnur minn í bókmenntafræði hefur gagnast mér mikið við listsköpun og bókatengd hönnunar- og teikniverkefni eru nú orðin sérgrein mín. Ég hef búið til sýningar sem byggja á bókmenntum, myndskreytt bækur sem kallast á við bókmenntaarfinn og teiknað myndrefla út frá Íslendingasögum m.a. Njálurefilinn.

Námið varð einnig til þess að ég fór að kenna fræðikúrsa m.a. við Listaháskóla Íslands og Myndlistaskólann í Reykjavík. Auk þess hef ég leiðbeint nemendum við BA-ritgerðaskrif og haldið ótal fyrirlestra. Síðan ég útskrifaðist úr bókmenntafræðinni við HÍ hef ég skrifað níu barnabækur. Námið hefur því skipt sköpum fyrir mig í störfum mínum.