Karitas Mörtudóttir Bjarkadóttir

„Gefið börnunum ást, meiri ást og ennþá meiri ást, og þá kemur skynsemin af sjálfu sér.“.
~ Astrid Lindgren ~

Ég er að klára BA-gráðu í íslensku með ritlist sem aukagrein en það stílar vel inn á áhugamálin mín, bókmenntir, skrif og lestur. Mig langar að vinna við skrif eða útgáfu af einhverju tagi, og stefni á framhaldsnám í hagnýtri ritstjórn og útgáfu á næsta ári auk þess sem mig langar til að taka kennararéttindi á einhverjum tímapunkti.

Ég hef tekið mörg skemmtileg námskeið síðan ég byrjaði í Háskólanum fyrir tveimur árum en nokkur standa þó upp úr. Námskeiðið Barna- og unglingabókmenntir sem ég tók síðasta vor kom sér til dæmis sérlega vel fyrir mig þar sem ég hafði nú þegar ákveðið að skrifa BA-ritgerðina mína um kenningar í barnabókum. Það var skemmtilega upp sett og verkefnin áhugaverð og mismunandi. Annað námskeið sem ég hafði mjög gaman af var á sviði kvikmyndafræðinnar og ritlistar, Smiðja; Skáldsagan á hvíta tjaldinu, þar sem handritshöfundurinn og leikstjórinn Ása Helga Hjörleifsdóttir kenndi okkur að skrifa handrit í réttum forritum, aðlaga bækur að hvíta tjaldinu og hvernig má þekkja helstu brögð handritagerðar í hinum ýmsu kvikmyndum. Ég er að vísu ekki mikil kvikmyndamanneskja, en ég mjög gaman af léttum krimmum á borð við Séra Brown og Miss Fischer‘s Murder Mysteries og sæki mikið í svoleiðis efni í bland við þægilega grínþætti eins og Best í Brooklyn. Ég prjóna svolítið, hekla og sauma, og finnst mjög gott að horfa á létt sjónvarpsefni á meðan, sem krefst ekki of mikillar athygli.

Ég hef líka fengist við skrifa svolítið, og hef gefið út fjórar ljóðabækur upp á eigin spýtur síðan ég útskrifaðist úr Verzló og er svo ótrúlega heppin að fá stöku sinnum að lesa upp úr þeim enn þá, þó svo að skrifin séu að mestu leyti á hillunni þessa dagana. Eins og ég minntist á hafa barnabækur átt hug minn allan síðan í vor og ég skilaði nýverið BA-ritgerðinni minni um Sálminn um blómið eftir Þórberg Þórðarson í ljósi kenninga um barnabækur. Mig langar endilega að vinna meira með þær í náminu mínu, hvort sem það yrði í útgáfu- og ritstjórnarstörfum eða kennaramenntuninni, því ég trúi því innilega að bækur séu eitt besta menntunar- og uppeldistólið. Auk þess finnst mér barnamenning ótrúlega heillandi fyrirbæri sem mætti gera hærra undir höfði. Börn eru svo rosalega dýrmætur hluti af samfélaginu sem er allt of oft horft fram hjá eða vanmetinn. Mitt uppáhalds spakmæli er haft eftir henni Astrid minni Lindgren, og það hljóðar svona á sænsku:

„Ge barnen kärlek, mere kärlek och ännu mera kärlek, så kommer folkvettet av sig sjålv.“

En þýðist lauslega yfir á okkar ástkæra ylhýra svona:

„Gefið börnunum ást, meiri ást og ennþá meiri ást, og þá kemur skynsemin af sjálfu sér.“

Mér finnst þetta svo fallega orðað, og taka svo vel saman hvað það er sem barnaefni og bækur eiga að gera, og hver ábyrgð fullorðinna er í þessum skilningi.