Hulda Sif Ólafsdóttir

„Sá eini sem gerir engin mistök, er sá sem gerir aldrei neitt.“
~ Theodore Roosevelt ~

Ég heiti Hulda Sif og starfa á Barnaspítala Hringsins. Ég er með BS gráðu í sálfræði og MM í klassískum söng og kennslu, en í mér blundar þó gamall draumur um ritun bóka og greina. Mér finnst fátt betra í heiminum en bækur!

 

 

Ég skrifaði mikið sem táningur, meðal annars greinar, pistla, smásögur og ljóð, en lagði lítið rækt við ritlistina á fullorðinsárum þar til nýlega. Ég dvaldi nokkra daga í þorpinu í bakgarðinum hjá Guðrúnu Evu Mínervudóttur, rithöfundi, sem gaf mér góða leiðsögn og hjálpaði mér að brjótast úr skelinni. Það var svo skemmtilegt að ég endurtók leikinn nokkrum vikum síðar og gæti vel hugsað mér að gera það aftur. Ég er núna að taka stök námskeið í ritlist og bókmenntum meðfram vinnu, til að auðga andann og næra sálina fyrst og fremst, en einnig til að auka við mig þekkingu og færni. Það er nefnilega með ritlistina eins og sönglistina, að maður hvorki heldur sér við né bætir sig nema með reglulegum æfingum og endurgjöf.

Ég er mikill listunnandi og hef gaman af hvers konar list. Ég gleymi því aldrei þegar ég tók námskeið í þýskum ljóðasöngvum í meistaranáminu mínu og hversu gaman það var að kafa samtímis djúpt ofan í tónskáldin og ljóðskáldin, lesa úr mismunandi samspili þar á milli og kynna sér heimspekina, söguna og stílinn sem búa að baki hvoru um sig. Klassíska sönglistin er nefnilega svo skemmtilegur kokteill, því hún sameinar flest það sé mér finnst skemmtilegt: tónlist, leiklist, leikritun og ljóð, heimspeki, sögu, sálfræði og fleira. Það sama á við um ritlistina. Það væri gaman að tengja eitthvað af þessu við ritverkefnin í Vefskrif II.

Fyrst og fremst vil ég skora á sjálfa mig að halda áfram að skrifa og reyna að fara út fyrir þægindarammann. Mér hættir stundum til missa mig í metnaði og sjálfsgagnrýni og gleyma að hafa gaman. Síðasta haust lauk ég námskeiðinu Skrif… andi hjá Ólöfu Sverrisdóttur í Endurmenntun Háskóla Íslands. Það var fínasta meðal við þessum kvilla.

Ég minni mig gjarnan á eftirfarandi tilvitnun eftir Theodore Roosevelt: „Sá eini sem gerir engin mistök, er sá sem gerir aldrei neitt.“