Hólmfríður María Bjarnardóttir

Hólmfríður María Bjarnardóttir

Hólmfríður María Bjarnardóttir fæddist árið 1995 og ólst upp á bóndabæ í Súgandafirði. Hún er með BA-próf í almennri bókmenntafræði með ritlist sem aukagrein og er nú í meistaranámi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Hún hefur tekið þátt í ýmsum menningarverkefnum og starfar nú sem bókavörður og húsvörður í Reykjavík.

Leiðbeinandi: Kjartan Már Ómarsson.

Klofið sjálf: Birtingarmynd sjálfsins í völdum verkum Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur

Í ritgerðinni er fjallað um skrif Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur út frá kenningum Erving Goffmann um sviðsetningu sjálfsins og játningarbókmenntum Ágústínusar og Rousseau. Rýnt er í valin verk Elísabetar en allt útgefið höfundarverk hennar var lesið til þess að finna í því sameiginlega þræði og setja það í samhengi við hana sjálfa. Viðburðir úr lífi Elísabetar fléttast inn í bækur hennar og tengja þær saman í eina heild. Elísabet hefur að mestu leyti skrifað um ást, ástleysi, náttúruna, jaðarsetningu, geðveiki, stríð og frið auk þess sem hún var í forystu skáldkvenna á Íslandi sem ortu um kynlíf, langanir og líkamann. Annað vinsælt viðfangsefni Elísabetar er klofningurinn í sálinni og sjálfinu. Sá klofningur gæti verið barátta eða hlutverkaspenna milli allra þeirra mismunandi hlutverka sem einstaklingar leika. Í gegnum lífið bera einstaklingar mismunandi grímur, mismunandi hatta og leika mismunandi hlutverk, allt eftir því hvað á við hverju sinni. Í gegnum þessa sviðsetningu gefa þeir sjálfum sér, öðrum og kringumstæðum merkingu.

Í ritgerðinni er snert á bókmenntasögu íslenskra kvenna og sagt frá sundruðu sjálfi skrifandi kvenna. Konur hafa fengið lítið pláss í bókmenntaheiminum og reynsla þeirra almennt talin þýðingarlítil. Það hefur orsakað sundrað sjálf og skipta sjálfsvitund í bókmenntum þeirra. Konur eru í sífelldri leit að sjálfi sem þær geta samsamað sig við og sæst við. Elísabet rannsakar áhrif berskunnar á sjálf sitt. Verk hennar eru minnismerki um leit hennar að sjálfinu sem er sundrað, klofið margfalt og fullt af skömm. Elísabet biður um að vera séð, svo hún geti speglað sig í þeim sem horfir og byggt upp sjálf.