Hlíf Einarsdóttir

„Kemur það er varir og hitt er eigi varir“ 
~ Grettir Ásmundarson (Grettissaga)  ~

„Sakleysið þekkir sig ekki sjálft“ 
~ Einar Jónsson, myndhöggvari (Minningar/Skoðanir, e. Einar Jónsson) ~

„Karlar eru keldur á vegi kvenna“  
~ Hallgrímur Helgason (Konan við 1000°, Herbjörgu Maríu, söguhetjunni eru gefin þessi orð) ~

Hlíf heiti ég, móðir sex drengja og eins og gefur að skilja þurftu áhugamál og menntun að hanga aðeins á ís á meðan var verið að koma þeim á legg. Í dag er ég að mennta mig og tengja mig aftur við áhugamálin, kannski aðallega rifja þau upp.  Eins og er þá er stefnan tekin á að öðlast færni til þess að sitja við og vinna, vinna að einhverju sem hefur ekkert með syni mína að gera, án þess að finna fyrir samviskubiti. Sektarkennd og samviskubit fékk ég nefnilega á sængina og er mig farið að langa að „býtta“ því út fyrir eitthvað annað. Mig grunar að áhugi minn teygi sig til skrifa, allavega er ég með stút fullan haus af hugmyndum sem ég myndi gjarnan vilja vinna með. 

Þar sem ég er nemandi í listfræði með ritlist sem aukagrein. Hef ég sótt mörg áhugaverð námsskeið tengt listfræðinni. En þar sem ekki er boðið er upp á ritlist sem aðalfag þá varð listfræðin fyrir valinu til þess að komast í ritlistina. En allra skemmtilegasta námsleið sem ég hef sótt er „How to write stand up comedy“, ég tók það námsleið 2019 í New York sem lauk með að því að hver nemandi átti að flytja efnið sitt fyrir framan áhorfendur í einum af virtustu „Stand up“ klúbbi New York borgar. Það var ákaflega skemmtileg lífsreynsla og ævintýraleg áskorun. 

Ég hef alltaf verið hryllilega lélegur „sjónvarpsgónari“, byrja mjög fljótt að ókyrrast og leiðast fyrir framan þann skjá. Það er einna helst frétta tengt efni sem ég sæki í bæði úr útvarpi og sjónvarpi. Alltaf þykir mér gaman að fara í leikhús og listsýningar og er nokkurskonar alæta á það. Hins vegar hef ég gaman af góðum bókum en nenni ekki að lesa hvað sem er. Á ég mér nokkrar uppáhalds sem ég get gluggað í aftur og aftur. Efst á þeim lista og hefur trónað þar síðan ég var 15 ára er Grettissaga, sagan af Gretti Ásmundasyni. Ekki fyrir nokkurn mun gæti ég giskað á hvað oft ég hef lesið þá bók. Grettissaga heillar mig fyrir svo margar sakir, einna helst þá vegna þess hve marglaga hún er og hvernig hún fer inn á djúpa mannlega þætti. Jafnvel þó Grettir sjálfur sé sú „óheillakráka“ sem hann er og þjáist af þessum óþolandi skapofsa, þá tengi ég við hann sem manneskja og ég finn til mikillar samkenndar með honum.

Til að nefna stuttlega aðrar bækur þá væru það þær  To Kill a Mockingbird eftir Harper Lee. Ég tel hana höfða til mín vegna ádeilunnar og þess raunveruleika sem sagan tekur á sem og persónusköpunin. Eins er það dásamleg sú staðreynd að hún er skrifuð út frá augum barns, sem gefur frásögninni eða sögunni einstakan tón. Svo get ég ekki látið bók eftir Hallgrím Helgason ónefnda; Konan við 1000°, söguhetjan einfaldlega hreiðraði strax um sig í hjarta mínu, bara á fyrstu blaðsíðu. En svo er það þessi einstaka færni Hallgríms á íslenskri tungu og sú kyngi magnaða og kómíska myndmálíska sem virðist vera honum meðfædd, sem bræðir mig í alla staði. Í hvert sin sem ég les bókina kem ég niður á eitthvað nýtt sem ég hafði ekki tekið eftir áður. 

Fyrst og fremst vil ég ná tökum á einhverskonar skipulagi eða vinnubrögðum. Ég vil geta klófest hugmyndir mínar og komið þeim fyrir á skipulegan hátt svo ég geti unnið með þær og  úr þeim án þess að týna þeim bara í því „hugargímaldinu“. Það viðfang eða efni sem höfðar mest til mín er raunveruleikinn, raunveruleikinn eins og hann er, en ekki eins og við viljum að sé.