Eyrún Lóa Eiríksdóttir

Um hvað snýst rannsóknin þín?

Í doktorsverkefni mínu Hin kvenlæga rödd í sjónvarpsþáttum samtímans er ég að rannsaka stöðu nútímakonunnar í tengslum við birtingarmyndir hennar á streymisveitunni Netflix. Ég er að skoða nýjar áherslur þegar kemur að kvenhlutverkum og hvernig söguþráður virðist hafa tekið breytingum í takt við jafnréttiskröfur. Um er að ræða kvenmiðað efni Netflix Originals sem eru sjónvarpsþættir og kvikmyndir sem Netflix framleiðir. Streymisveitan hefur lagt sitt að mörkum til að vinna gegn kynjahalla Hollywood og framleiðir efni sem telst til skörunar femínisma (e. Intersectional Feminism) en þetta skilar sér í því að fleiri og fjölbreyttari raddir heyrast. Þar sem streymisveitan er áskriftarveita ráða auglýsendur ekki efninu og ekki er hætt við framleiðslu þátta sem ná ekki margmilljóna áhorfi á frumsýningardegi í Bandaríkjunum (eins og hjá hefðbundnum sjónvarpsstöðvum). Ef handritshöfundar fá frjálsari hendur má leiða líkur að því að það skili sér að einhverju leyti í mismunandi efnistökum og síður í ráðandi meginstraums staðalímyndum. Netflix streymisveitan er leiðandi í persónulegri dagskrá en svokallað algrím reiknar út smekk hvers og eins og setur fram efni sem gæti fallið í kramið. Sjónvarpsþættir hafa mikla útbreiðslu og hafa oft áhrif á ákvarðanir áhorfenda og viðhorf sem eru merkingarbær ef haft er í huga að ríflega helmingur íslenskra heimila er í áskrift.

Hver var kveikjan að rannsókninni?

Kveikjan að rannsókninni var að mig vantaði rannsóknarefni fyrir doktorsritgerðina. Ég er með tvær meistaragráður og hafði skrifað um kalda stríðið og ofurhetjur í annarri og póstfemínisma og tímakrísuna í sjónvarpsþáttunum Younger í hinni. Mig langaði að halda áfram að rannsaka konur og sérstaklega eldri konur og fór að velta fyrir mér hvernig þær eru framsettar á Netflix streymisveitunni. Ég hef rannsakað sjónvarpsefni um árabil og horft á óendanlega margar seríur en sjónvarpsefni á Netflix stóð upp úr hvað varðar breytt efnistök og útbreiðslu hugmynda. Þegar ég fór að safna heimildum sá ég að kvenkyns handritshöfundar, leikstjórar og leikkonur líta mikið til Netflix og segja að ferskir vindar blási þangað. Ég hef sérstaklega gaman að 80‘s kvikmyndum og vil endilega sjá sem flestar leikkonur frá þeim tíma fá tækifæri til að láta ljós sitt skína. Mér finnst hafa orðið ákveðin breyting frá því að Grace & Frankie þættirnir slógu í gegn, efnistök og birtingarmyndir eldri kvenna eru að breytast. Eldri konur sem eru komnar yfir sextugt eru að fá aukin tækifæri, þetta er mjög stór hópur leikkvenna sem hefur áhuga á að leika og áhorfendur virðast kalla eftir því að horfa á þær (skv. vinsældum Mamma Mia!, Grace & Frankie, One Day at a Time ofl.). Það var frumsýnd stikla nýlega um nýja HBO þætti sem Helen Mirren leikur burðarhlutverk í sem nefnast Catherine the Great. Hún er 74 ára en stjórnar öllu með harðri hendi og er um leið eftirsótt af karlmönnum, einn segir í stiklunni að hún sé fegursta kona sem hann hafi augum litið. Hefði þetta verið mögulegt fyrir nokkrum árum?

Í hverju felst vinnan við rannsóknina?

Vinnan við rannsóknina felst helst í að horfa á kvenmiðaða sjónvarpsþætti/kvikmyndir og lesa eins margar fræðigreinar og fræðibækur um sjónvarpsfræði, Netflix, femínisma og öldrunarfræði sem ég kemst yfir. Ég hef líka farið á ráðstefnur sem tengjast umfjöllunarefni rannsóknarinnar og horft á heimildarmyndir og rætt um sjónvarp við konur á öllum aldri til að heyra hvað þeim finnst. Þegar maður er bókmenntafræðingur þá setur maður alltaf upp ákveðin greiningargleraugu þegar maður horfir á sjónvarpsþætti og því gaman að tala um þá og heyra hvernig aðrir túlkuðu þá. Ég glósa mikið hjá mér og svo einhvern veginn myndast þessir töfrar þegar allt kemur saman og samhengið myndast. Ég er með frábæran leiðbeinanda, Öldu Björk Valdimarsdóttur, dósent sem hefur verið ómetanleg í öllu ferlinu. Ég fæ ítarlegar og gagnlegar athugasemdir hjá henni um það sem mætti betur fara. Mér finnst skrifin hjá mér alltaf batna þegar hún er búin að fara yfir og ég verð aðeins betri fræðimaður í hvert skipti. Það skiptir miklu máli að vera í góðu sambandi við leiðbeinanda sem hefur reynsluna og metnaðinn, það skilar sér í betri rannsóknum og fræðum.

Eru komnar niðurstöður eða eru væntingar um tilteknar niðurstöður?

Það eru ekki komnar niðurstöður þar sem doktorsritgerðin er í smíðum. Það er erfitt að segja til um væntingar eða tilteknar niðurstöður, mín tilfinning er sú að áherslur séu að breytast þegar kemur að hinni kvenlægu rödd í sjónvarpsefni samtímans. Með þátttöku fleiri kvenna, handritshöfunda, framleiðenda og leikstjóra og leikkvenna á öllum aldri fáum við aukna breidd í sögurnar sem eru sagðar, e.t.v. færri staðalímyndir og sem flestar birtingarmyndir sem hinn almenni áhorfandi nýtur góðs af. Með því að setja sig í spor annarra skiljum við aðra eða eins og Michelle Obama sagði: [1] „Fyrir svo marga eru sjónvarp og kvikmyndir eina leiðin til að skilja fólk sem er ekki eins og það sjálft“.

Hvaða gildi hefur þessi rannsókn fyrir vísindin almennt og samfélagið í heild?

Femínísk fræði hafa verið gagnrýnd á undanförnum árum fyrir að einblína á stöðu yngri kvenna. Í doktorsritgerðinni er eldri konum gefinn gaumur, framsetning þeirra rannsökuð sem og hinn aldni líkami eins og hann kemur fyrir. Það er mikilvægt að svara spurningunni hvers vegna eldri konur hafa verið fjarverandi úr sjónvarpsefni og kvikmyndum og ekki síður hvers vegna dyrnar eru að opnast núna.

Íslenska þjóðin eyðir miklum tíma fyrir framan sjónvarps- og snjalltæki og hefur tekið Netflix opnum örmum. Rannsóknir hafa sýnt að sjónvarpsþættir móta smekk og hafa áhrif á hugsunarhátt og ákvarðanatöku. Það er því mikilvægt að rannsaka birtingarmyndir kvenna í sjónvarpsþáttum, við erum jú helmingur jarðarbúa.

[1] “For so many people, television and movies may be the only way they understand people who aren’t like them.”