Eyrún Lóa Eiríksdóttir
Eyrún Lóa er doktorsnemi, með BA-próf í almennri bókmenntafræði, MA-próf í almennri bókmenntafræði og MA-próf í hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Eyrún Lóa hefur skrifað um ástina í dægurlagatextum, ofurhetjur í kalda stríðinu og sjónvarpsþættina Younger. Doktorsritgerð Eyrúnar Lóu fjallar um raddir kvenna í sjónvarpsþáttum samtímans, nánar tiltekið á Netflix.
Leiðbeinandi er Alda Björk Valdimarsdóttir.
Í doktorsverkefni mínu Hin kvenlæga rödd í sjónvarpsþáttum samtímans er ég að rannsaka stöðu nútímakonunnar í tengslum við birtingarmyndir hennar á streymisveitunni Netflix. Ég er að skoða nýjar áherslur þegar kemur að kvenhlutverkum og hvernig söguþráður virðist hafa tekið breytingum í takt við jafnréttiskröfur. Um er að ræða kvenmiðað efni Netflix Originals sem eru sjónvarpsþættir og kvikmyndir sem Netflix framleiðir. Streymisveitan hefur lagt sitt að mörkum til að vinna gegn kynjahalla Hollywood og framleiðir efni sem telst til skörunar femínisma (e. Intersectional Feminism) en þetta skilar sér í því að fleiri og fjölbreyttari raddir heyrast. Þar sem streymisveitan er áskriftarveita ráða auglýsendur ekki efninu og ekki er hætt við framleiðslu þátta sem ná ekki margmilljóna áhorfi á frumsýningardegi í Bandaríkjunum (eins og hjá hefðbundnum sjónvarpsstöðvum). Ef handritshöfundar fá frjálsari hendur má leiða líkur að því að það skili sér að einhverju leyti í mismunandi efnistökum og síður í ráðandi meginstraums staðalímyndum. Netflix streymisveitan er leiðandi í persónulegri dagskrá en svokallað algrím reiknar út smekk hvers og eins og setur fram efni sem gæti fallið í kramið. Sjónvarpsþættir hafa mikla útbreiðslu og hafa oft áhrif á ákvarðanir áhorfenda og viðhorf sem eru merkingarbær ef haft er í huga að ríflega helmingur íslenskra heimila er í áskrift.
Ég hef nú þegar lokið við að skrifa fyrsta kaflann sem fjallar um eldri konur eins og þær birtast í sjónvarpsþættinum Grace & Frankie en þar er kastljósinu beint að tilverurétti eldri kvenna á áttræðisaldri og málefnum tengdum þeim sem hafa ekki endilega átt upp á pallborðið í meginstraumssjónvarpsþáttum. Það eru atriði eins og atvinnuþátttaka eldri kvenna, vinskapur og sambýli á efri árum, kynlíf/hjálpartæki ástarlífsins sem henta eldri konum og ákvörðunarréttur yfir eigin líkama, búsetu og mat á eigin færni. Einnig koma aldursfordómar mikið við sögu á gamansaman hátt en þó alltaf með alvarlegum undirtóni. Meginboðskapur þáttanna er að það getur verið heilmikið ævintýri að vera á áttræðisaldri, lífið er auðvitað stundum erfitt en það getur líka verið skemmtilegt og gefandi, sérstaklega þegar maður á góða vinkonu sem stendur með manni og tekur þátt í ævintýrunum.
Það sem ég er helst að rannsaka er sýnileiki hins aldna líkama, beðmál (h)eldri borgara, kynjamunur og vinskapur eldri kvenna, reiði, aldursfordómar og „ póstfemíníska eftirlitið“ (konurnar eru vaktaðar í því skyni að koma auga á öldrunarummerki). Það virðist vera mikill munur á því hvort maður er eldri kona eða karl í Bandaríkjunum samkvæmt þáttunum. Eiginmennirnir fá að vinna eins lengi og þeir kjósa, þeir eru ekki undir pressu að flytja í íbúðir fyrir eldri borgara eins og dömurnar og þeir flytja í raun í stórt sérbýli. Þeir taka þátt í listalífi og eiga marga vini, þeir þurfa ekki að hafa áhyggjur af peningum né verða þeir fyrir eins miklum aldursfordómum og konurnar. Þeir þurfa ekki að hafa áhyggjur af útlitinu eða hvort þeir séu nógu kynþokkafullir í augum annarra. Konurnar þurfa hins vegar að berjast fyrir að fá að komast aftur út á vinnumarkað, búa einar í strandhúsi, hitta yngri karlmenn og þær þurfa meira að segja að berjast fyrir því að fá afgreiðslu í kjörbúð (þar sem þær eru hunsaðar).
Næsti kafli er langt kominn nú í lok nóvember 2019 en hann fjallar um framsetningu Elísabetar II Bretadrottningar í The Crown (2016- ) sem konu, drottningar, móður og eiginkonu. Næstu kaflar munu beina kastljósinu að kynbundnu ofbeldi og valdeflandi femínisma í ofurhetjuþáttunum Jessica Jones (2015-2019), og femínisma í Rom Com kvikmyndum Netfix þar sem er horfið er frá hefðinni ef svo má segja.