Eva Sóley Sigurðardóttir
Hvenær fékkst þú áhuga á almennri bókmenntafræði?
Það var þegar ég stundaði meistaranám í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu og lauk nokkrum valnámskeiðum í bókmenntafræðinni, að ég fékk brennandi áhuga á faginu. Eftir að hafa lokið því námi skráði ég mig í bókmenntafræði og lauk meistaranámi árið 2017. Lokaritgerðin mín fjallaði um íslenskt leikrit sem ég greindi útfrá ákveðnu rituali og absúrdisma. Verkefnið heitir Absúrd tilvist og heilög vegferð.
Hvernig fannst þér námið, myndir þú mæla með því?
Námið var mjög fjölbreytt og skemmtilegt enda komið víða við. Það var gaman að lesa bókmenntatexta frá ólíkum menningarheimum og auka þannig víðsýni, innsæi og skilning á manneskjunni og fjölbreytni veraldarinnar. Námið þjálfar gagnrýna hugsun og eftir að námi lauk áttaði ég mig á því að námið hafði dýpkað þekkingu mína á ótal mörgum sviðum. Nokkuð var um fyrirlestra tengdum skriflegum verkefnum sem var mjög góð reynsla fyrir mig bæði í frekara námi og starfi.
Við hvað starfar þú í dag, nýtist menntunin í starfi?
Meðan ég stundaði námið í bókmenntafræðinni bauðst mér tvisvar að vera aðstoðarkennari, fyrst í námskeiði um menningarheima og síðan um bókmenntaritgerðir. Upp úr því fékk ég brennandi áhuga á kennslu og skráði mig í kennsluréttindanám fyrir framhaldsskóla árið eftir útskrift. Eftir að ég lauk því námi lauk starfaði ég sem framhaldsskólakennari úti á landi þar sem ég kenndi bókmenntasögu, yndislestur o.fl. Ég vonast til að starfa við kennslu í framtíðinni en ég er nýflutt í borgina aftur.