Elísa Schram

„Átti þá þessi eyðimörk daganna einga vin?“
~ Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness ~

Ég er að læra hagnýta ritstjórn og útgáfu. Ég hef m.a. áhuga á menningarlegri afþreyingu svo sem bókalestri, tónleikum, leikritum o.s.frv. Ég hef einnig mjög gaman af ferðalögum og útivist. Ég stefni á að klára meistaragráðuna og vinna í bóka- eða tímaritsútgáfu.

Síðastliðið haust fór ég á áhugavert námskeið í Endurmenntun Háskóla Íslands. Það hét Sagnalandið sem Halldór Guðmundsson hélt, byggt á samnefndri bók hans. Það var einskonar bókmenntaleg hringferð um Ísland. Hann tók fyrir mismunandi staði á landinu og sagði frá hvaða ritverk höfðu verið skrifuð um staðinn. Það var þannig gaman að tvinna saman áhuga á landinu og bókmenntum.

Mér finnst ævisögur skemmtilegar því ég hef áhuga á öðru fólki og lífshlaupi þess. Á sama tíma lærir maður yfirleitt eitthvað um mannkynssöguna. Hvað varðar sjónvarpsseríur finnst mér grínþættir skemmtilegir en einnig þættir byggðum á sögulegum atburðum. Annars finnst mér hvað skemmtilegast að fara í leikhús. Þá er best að fara á grín-, drama- og klassísk verk í bland. Mér finnst leikritið Veisla sem er verið að sýna í Borgarleikhúsinu núna óborganlega fyndið. Ég kolféll einnig fyrir verkinu Ríkharður III árið 2019.

Í náminu langar mig að tileinka mér allt sem ég get til þess að farnast sem best í starfi ritstjóra. Ef ég færi að starfa hjá tímariti hefði ég áhuga á að vinna hjá blaði eins og Nýju Lífi sem fjallar um samfélagsmál og tekur viðtöl við áhugaverðar manneskjur. Ég er forvitin um líf fólks og því sem á daga þess hefur drifið.

Ég hef nýlokið við Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness og orðfærið í þeirri bók er snilldarlegt sem og allt líkingamálið. „Átti þá þessi eyðimörk daganna einga vin?“.