Einar Kári Jóhannsson

Einar Kári Jóhannsson er með meistarapróf í almennri bókmenntafræði og bakkalárpróf sömuleiðis. Hann starfar sem bóksali en er auk þess einn stofnenda Unu útgáfuhúss þar sem hann gegnir hlutverki ritstjóra og er framkvæmdarstjóri fyrirtækisins. Einar Kári hefur birt greinar, smásögur, ritað fræðilega eftirmála og vinnur nú að bók úr lokaverkefninu sínu. Hann er háður góðum bókmenntum og vill auka aðgengi og vegsemd þeirra.

Leiðbeinandi: Jón Karl Helgason

 

Um ritgerðaskrifin:

Ritgerðin mín ÞJÓÐ(AR)SAGA SJÓNS: Pólitísk ummyndun á sameiginlegum minningum Íslendinga í sögulegum skáldverkum Sjóns er einskonar leiðarvísir um sögulegar skáldsögur Sjóns, með sérstaka áherslu á tilhneigingu skáldsins til þess að vinna skapandi og frumlega með fortíð landsins, og þá ádeilu sem felst í endurskoðun á sögunni. Ég hafði áður skrifað um svipuð mál í völdum verkum eftir Sjón og þegar kom að því að velja efni fyrir meistararitgerð þá benti leiðbeinandi minn, Jón Karl Helgason, á að þar gæti ég lagt meira til málanna. Við Jón Karl höfðum áður átt farsælt samstarf og það var mjög þægilegt að vera undir handleiðslu kennara sem þekkir mína styrkleika og veikleika. Þegar viðfangsefnið lá fyrir tók við leit að réttri fræðilegri nálgun, stíl og uppsetningu. Eftir að það small saman gengu skrifin afar vel fyrir sig, þótt verkefnið væri stórt í sniðum. Eftir skil var ég ekki laus allra mála því áhugi kveiknaði á að þýða ritgerðina á ensku og gefa út á bók. Á síðustu misserum hef ég unnið með þýðanda og ég vona að það rætist úr áformum okkar um útgáfu.

Útdráttur:

Í ritgerðinni eru söguleg skáldverk Sjóns skoðuð með það að markmiði að greina þjóðfélagslegan tón og ádeilu sem leynast í textanum. Aðferðafræði Sjóns er sett í samhengi við umræðu innan bókmenntafræði um getu og takmörk póstmódernískra skáldverka til að gagnrýna samtímann með pólitískum hætti. Sérstaklega er stuðst við hugmyndir Lindu Hutcheon sem segir að póstmódernisminn sé ávallt pólitískur; þar sem höfundar nota aðferðir á borð við textatengsl, skopstælingu, kaldhæðni og endurvinnslu á fortíðinni til að gera það sem talið er „náttúrulegt“ í menningunni og þjóðskipulaginu aftur „ónáttúrulegt“. Sem viðmið við ádeilu Sjóns er miðað við fræðilegar skilgreiningar á sameiginlegum minningum íslensku þjóðarinnar. Þannig er leitast við að sýna fram á hvernig Sjón ummyndar og afbyggir þessar sameiginlegar minningar og á í markvissri samræðu við samtímann í gegnum söguleg skáldverk af póstmódernískum meiði.