Diljá Þorbjargardóttir
„The more that you read, the more things you will know. The more that you learn, the more places you'll go.“
~ Dr. Seuss ~
Ég heiti Diljá Þorbjargardóttir og er 22 ára meistaranemi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Vorið 2021 lauk ég BA-prófi í íslensku við Háskóla Íslands. Námið var fjölbreytt, áhugavert og góður undirbúningur fyrir ritstjórnarnámið. Ég stunda einnig framhaldsnám í listdansi við Klassíska listdansskólann. Svo eyði ég mestum frítíma mínum í að lesa. Ég hef líka gaman að því að spila með vinum og fjölskyldum, teikna, mála og ferðast.
Ég er ekki búin að ákveða nákvæmlega hvert ég stefni og það eru nokkrir möguleikar sem ég er að íhuga. Ég hef mikinn áhuga á bókaútgáfu og þá sérstaklega barnabókaútgáfu svo ég væri til í að starfa við það. Dans er líka stór hluti af lífi mínu og mig langar að kenna dans í framtíðinni. Það eru margir kennarar í fjölskyldunni minni og kennsla af hvaða tagi sem er heillar mig hvort sem það er dans eða eitthvað annað.
Í námi mínu við Háskóla Íslands hef ég tekið mörg spennandi námskeið. En þau sem standa upp úr eru Barna- og unglingabarnabókmenntir, Ímyndunaraflið og Tröllskapur: Sagnalist, raunsæi og yfirnáttúra. Þetta eru allt bókmenntanámskeið sem kennd voru af frábærum kennurum og þar sem teknar voru fyrir áhugaverðar og ólíkar bækur.
Mér hefur alltaf fundist gaman að lesa og fantasíubækur eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég á margar uppáhaldsbækur en nokkrar þeirra eru The Night Circus eftir Erin Morgenstern, The Invisible Life of Addie LaRue eftir V.E. Schwab, Among Others eftir Jo Walton, The Perks of Being a Wallflower eftir Stephen Chbosky og Salt to the Sea eftir Rutu Sepetys. Einnig held ég mikið upp á Harry Potter-bækurnar og kvikmyndirnar. Uppáhaldsbækurnar mínar eru ólíkar en eiga það sameiginlegt að vera fallegar sögur sem höfðu mikil áhrif á mig þegar ég las þær.
Í náminu langar mig að leggja áherslu á að læra hluti sem munu nýtast mér í framtíðinni bæði í lífi og starfi. Ég vil verða góður ritstjóri í framtíðinni og tel að námið muni alltaf nýtast mér í hverju sem ég mun taka mér fyrir hendur.