Bergdís Júlía Jóhannsdóttir

„Engin sæmilega uppalin manneskja gengur á land í eyju sem aðrir eiga þegar þeir eru ekki heima.
En ef þeir setja upp svona skilti þá gerir maður það því það er hrein ögrun.“
~ úr Sumarbókin eftir Tove Jansson ~

Um þessar mundir stunda ég nám við HÍ með það markmið að víkka og breikka mig og auðvitað hafa gaman af. Ég er að taka ritlistarkúrsa með þá von um að komast yfir nokkurra ára ritfælni og ætla að ögra sjálfri mér með því. Ég er leikkona, leikstjóri og leiklistarkennari ásamt því að vera móðir tveggja skörunga, sem hressa, bæta og kæta tilveruna.

Ég hef ótal mörg áhugamál en rækta þau ekki öll. Ég á það til að vaða úr einu í annað og dvelja ekki nógu lengi við til þess að ná góðum tökum á einhverju. Hinsvegar get ég sagt að hreyfing af allskyns toga er stórt áhugamál og lífsnauðsyn sem ég legg eflaust aldrei á hilluna. Ég glamra á gítar og ukulele mér til skemmtunar og syng hástöfum með. En áhugi minn beinist oftast að listum og þá sér í lagi að sviðslist og ritlist. Ég stefni á að rækta ritlistina enn frekar og hef nú þegar hafið skrif á handriti fyrir sjónvarpsþætti ásamt því að leyfa þremur ljóðum eftir mig að birtast í tímariti. Ég bind vonir við að ég eigi eftir að nýta pennann í eitthvað meira.

Það er langt síðan ég stundaði nám síðast og hef ég augastað á mastersnámi sem ég vona að ég muni leggja stund á 2023. En ég hugsa, að alveg sama hvenær ég verð spurð, þá sé einn sá skemmtilegasti áfangi sem ég hef tekið, Trúðatækni. Það er eitthvað sem ég held að allir verði að fá að prófa; að finna trúðinn sinn og sitt innra barn aftur. Alveg dásamlega frelsandi.

Ég hef alltaf talið mig vera mjög opna fyrir bókmenntum og les fjölbreytta flokka. Hins vegar hef ég komist að því að ég er engin sérlegur aðdáandi norrænna krimma. Verð kannski bara að viðurkenna að ég hef ekki ennþá lesið slíka bók. En aldrei að segja aldrei. Ég gerði þá merku uppgötvun fyrir tveimur árum að ég hafði algerlega farið á mis við myndasöguflokkinn. Ég hef því lagt ríka áherslu á það núna að lesa fleiri myndasögur af allskyns toga og sú nýjasta heitir Persepolis eftir Marjane Satrapi og lofar virkilega góðu. Leikrit, ljóð, sjálfsævisögur og æviminningar, góðar skáldsögur með ríkum lífsgildum, lífsspeki og samfélagslegum- og persónulegum átökum, samfélagslegar ádeilur sér í lagi bækur sem tengjast femínisma á einhvern hátt ásamt barnabókum sem heilla mig einna mest.

En eitt af aðal markmiðum mínum er að lesa heiminn, því það er mér svo mikilvægt að stækka heiminn minn og fá innsýn inn í líf annarra á plánetunni. Ég er mjög meðvituð um hve lítið ég í raun veit og hef séð og upplifað.

Í þessu námi langar mig bara að finna röddina mína og gefa mér leyfi til þess að hafa skoðanir sem falla ekki í kramið hjá öllum og taka þátt í samfélagslegu samtali.