Benedikt Hjartarson

Prófessor

Benedikt Hjartarson

Í hnotskurn

Hvernig lá leið þín í
almenna bókmenntafræði?

Ætli það hafi ekki verið röklegt skref á sínum tíma? Á menntaskólaárunum hafði áhuginn á bókmenntum farið vaxandi og ég hafði lesið þar hitt og þetta af frönskum, rússneskum, norrænum og suður-amerískum bókmenntum. Þegar leiðin lá í háskólann hafði ég áhuga á að læra eitthvað nýtt og þá virtist almenna bókmenntafræðin vera spennandi kostur. Valið stóð í raun á milli guðfræði, þjóðfræði og almennrar bókmenntafræði og einhvern veginn varð bókmenntafræðin fyrir valinu.

Hvað er það áhugaverðasta við almenna bókmenntafræði?

Bókmenntafræðinni er ekkert óviðkomandi.  Bókmenntirnar þrífast á sambandi sínu við önnur svið menningarinnar, þannig að þegar við rannsökum bókmenntir erum við alltaf um leið að skoða hvernig þær vinna úr og spegla hugmyndir sem mótast á sviði vísinda, trúarbragða, heimspeki o.s.frv. Magnaðri spegill á flækjurnar í menningu hvers tíma er ekki til.

Af hverju er almenn bókmenntafræði sniðugt námsval?

Í fyrsta lagi stuðlar hún að víðsýni. Ólíkt námi í tilteknum þjóðarbókmenntum byggist almenn bókmenntafræði á samanburði og þjálfar okkur í að skoða tengingar á milli ólíkra tungumála og hefða. Í öðru lagi tengist bókmenntafræðin öðrum greinum hug- og félagsvísinda á margbrotinn hátt og námið opnar ýmsar leiðir fyrir þá sem eru enn leitandi eða forvitnir. Fyrir mér er bókmenntafræðin síður afmarkað sérsvið en verkfæri sem nýtist til að fá skilning á ólíkum sviðum og birtingarmyndum menningar og samfélags.

Hvert er þitt áhugasvið innan fræðigreinarinnar?

Áhugasviðin eru nokkur og liggja bæði innan og utan bókmenntafræðinnar. Í raun hef ég fyrst og fremst áhuga á sögu þekkingarinnar, hugmyndum manna um hvað bókmenntir og listir eru og því hlutverki sem þeim er ætlað að gegna við mótun samfélagsins. Ég hef sérstakan áhuga á vondum bókmenntum og tengslum bókmennta við hvers kyns gagn- og jaðarmenningu, allt frá bóhemíu nítjándu aldar til framúrstefnu 20. aldar og pönksins.

Tristan Tzara

Tilvitnunin

„Psychologie psychologie hihi“ (Tristan Tzara, 1916)

Námsferill

2012

Doktorspróf, Rijksuniversiteit í Groningen

1998-2006

Eberhard Karls háskóli í Tübingen, Doktorsnám í almennri bókmenntafræði

1997-1998

Christian Albrechts háskóli í Kiel, Nám í þýsku og almennri bókmenntafræði

1997

MA-próf, Háskóli Íslands,
Almenn bókmenntafræði

1995

BA-próf, Háskóli Íslands, Almenn bókmenntafræði

1993-1994

Sorbonne-háskóli, Nám í frönskum bókmenntum og almennri bókmenntafræði

Náms- og starfsferill:

Ég lauk doktorsprófi á sviði hugvísinda frá háskólanum í Groningen árið 2012, að loknu námi við Háskóla Íslands, Sorbonne-háskóla (París IV), háskólann í Kiel, háskólann í Tübingen og háskólann í Groningen. Ég var sendikennari við Norrænudeild háskólans í München og starfaði sem stundakennari við háskólann í Tübingen, við Vínarháskóla, við HÍ og LHÍ, áður en ég var ráðinn til starfa sem aðjunkt og síðar lektor, dósent og prófessor í almennri bókmenntafræði og menningarfræði við HÍ.

Sérvið

Ég hef einkum fengist við framúrstefnu í bókmenntum og listum og lagt megináherslu á fyrstu áratugi tuttugustu aldar, þ.á m. hreyfingar eins og fútúrisma, dada, konstrúktífisma, expressjónisma og súrrealisma. Ég hef einnig fengist við birtingarmyndir framúrstefnu á síðari tímum og tekist jöfnum höndum á við bókmenntir, myndlist, kvikmyndir og aðrar fagurfræðilegar afurðir og birtingarmyndir framúrstefnu. Á síðustu árum hafa rannsóknir mínar í auknum mæli beinst að nútímadulspeki og straumum á borð við spíritisma, guðspeki, sálarrannsóknum, náttúruspeki, galdratrú, gullgerðarlist o.fl.

Hafa samband

Molinn

Úr þýðingu á Minnisblöðum Maltes Laurids Brigge

Æ, ljóð verða svo lítilfjörleg ef maður skrifar þau of snemma. Maður ætti að bíða með það og safna merkingu og unaðssemdum alla lífsleiðina og það helst langa, þá gæti maður kannski í blálokin skrifað tíu línur sem yrðu góðar. Því ljóð eru ekki tilfinningar, eins og fólk telur (þær fær maður nógu snemma), heldur reynsla. Til að koma saman ljóði þarf maður að sjá margar borgir, menn og hluti, maður þarf að þekkja dýrin, maður þarf að skynja hvernig fuglarnir fljúga og kunna skil á hreyfingum smáblómanna þegar þau opnast að morgni. Maður þarf að geta hugsað aftur til gönguleiða á ókunnum slóðum, til óvæntra kynna og skilnaðarstunda sem maður vissi lengi að vænta mætti – til æskudaga sem enn búa yfir leyndardómi, til foreldra sem maður gat ekki annað en sært þegar þeir færðu manni glaðning en maður skildi það ekki (það hefði glatt einhvern annan), til barnasjúkdóma sem byrja svo einkennilega með miklum og þungbærum breytingum, til daga í friðsælum og afskekktum stofum og til morgna við hafið, til hafsins yfirleitt, til ferðanátta við hafið sem þutu hjá með stjörnunum – og þótt manni auðnist að hugsa til alls þessa dugir það ekki til. Maður þarf að eiga minningar um margar ástarnætur, enga annarri líka, um öskur kvenna með hríðir og um léttar, fölar, sofandi sængurkonur sem lokast aftur. En maður þarf líka að hafa verið hjá hinum dauðvona, þarf að hafa setið í herbergi hjá líki við opinn glugga þegar hljóð berast í hrinum. Og það dugir ekki heldur að eiga minningar. Maður þarf að geta gleymt þeim ef þær eru margar og hafa næga þolinmæði til að bíða eftir að þær komi aftur. Því þetta snýst ekki um minningarnar sem slíkar. Það er ekki fyrr en þær renna okkur í blóð, renna saman við sjón okkar og hreyfingar, þegar þær verða nafnlausar og óaðgreinanlegur hluti okkar sjálfra, fyrst þá getur það hent á fágætu augnabliki að upphafsorðið í ljóði rísi upp á meðal þeirra og vaxi af þeim. Öll mín ljóð hafa aftur á móti orðið til á annan veg, eru sem sagt ekki ljóð.”