Hvernig lá leið þín í almenna bókmenntafræði?

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á málvísindum og heimspeki, auk þess að vera mikill bókmennta- og kvikmyndaunnandi. Val á háskólanámi stóð í rauninni á milli íslensku og almennrar bókmenntafræði. Bókmenntafræðin heillaði mig því hún rúmar svo margt og sameinar mörg ólík svið, auk þess að vera góður grunnur fyrir hvers kyns áframhaldandi nám í hugvísindum.

 

 

Geturðu sagt okkur frá einhverju skemmtilegu námskeiði sem þú hefur verið í?

Þau eru ekkert smá mörg! Á fyrstu önninni minni tók ég til að mynda námskeiðið Norðrið í ljósi eftirlendustefnu sem er mér afar minnisstætt. Á námskeiðinu fjölluðum við meðal annars um eftirlendufræði, vald orðræðunnar, ímyndaða landafræði, sjálfsmynd þjóða og ýmsar hugmyndir um norðrið eins og það birtist í bókmenntum. Við lásum alls konar verk, allt frá „klassíkerum“ á borð við Heart of Darkness eftir Joseph Conrad og ljóð Lord Byrons til afþreyingarbókmennta á borð við sakamálaseríu Jussi Adler Olsen um danskan spæjara sem leysir dularfulla glæpi. Námskeiðið opnaði fyrir mér nýja sýn á fræðin og aukinn skilning á þeim hugmyndakerfum sem við búum við í samtímanum. Af öðrum eftirminnilegum námskeiðum langar mig að nefna Spænskar bókmenntir, Jane Austen í samtímanum og námskeiðið Symbólismi, dekadens og aldahvörf í evrópskum bókmenntum sem ég er í þessa önnina.

Hvað ætlar þú að starfa við eftir að námi lýkur?

Ég gæti vel hugsað mér að starfa við fjölmiðla og fréttamennsku, kvikmyndir eða leikhús, kennslu eða fræðastörf. Það er þó aldrei að vita, hvar kona endar.