Ásdís Björg Káradóttir

Ásdís hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur og er með diplómanám í sálgæslu. Hún hóf nám í almennri bókmenntafræði eftir að lífið tók óvænta stefnu. Sú ákvörðun var heillarík.

Ásdís útskrifaðist með BA-gráðu í almennri bókmenntafræði vorið 2019 og stundar nú meistaranám í Ritlist. Lokaritgerð hennar nefnist Þegar lífið tekur óvænta stefnu: Geta frásagnir og metafórur endurbyggt laskaða sjálfsmynd eftir lífsógnandi áföll?

Leiðbeinandi: Alda Björk Valdimarsdóttir.

„Þegar lífið tekur óvænta stefnu“ er ritgerð sem fjallar um hvort frásagnir og metafórur geti byggt upp laskaða sjálfsmynd þeirra sem verða fyrir áfalli eða djúpum harmi sem ógnar lífi þeirra. 

Áhugi minn á þessu viðfangsefni er sprottinn af tveimur ástæðum; annars vegar hef ég starfað sem hjúkrunarfræðingur við sálgæslu krabbameinssjúkra og aðstandenda þeirra í fjölmörg ár og hins vegar veiktist ég sjálf af krabbameini. Helsta rannsóknarefni mitt er spurningin: Geta frásagnir og metafórur endurbyggt laskaða sjálfsmynd eftir lífsógnandi áföll?

Þegar tvenndarhugtakið fer frá heilbrigði yfir í veikindi þá breytist sjónarhornið og sjálfsmyndin breytist, hún laskast og við það rís oft einhver þörf að orða reynsluna, til að finna merkingu og tilgang.

Heilbrigði eru eðlileg heimkynni hvers einstaklings en sjúkdómur er ferðalag burt frá þeim stað. Sársauki er til dæmis tilfinning sem er ekki hægt að lýsa án þess að nota metafóru. Vart er hægt að fjalla um metafórur tengdum lífsógnandi sjúkdómum án þess að fjalla um Susan Sontag sem hefur haft gríðarleg áhrif með skrifum sínum og er hugmyndafræði hennar varðandi metafórur því með í för í þessari ritgerð.

Þeir fræðimenn sem hér er fjallað um hafa lagt sig fram um að rannsaka hvernig unnið er úr erfiðri reynslu.

Samtal, hvert sem það er, hefur áhrif á lífssögu einstaklinga. Frásagnarformin eru mismunandi og ólík sjónarhorn birtast, en við það víkkar sjónarhornið og ný sýn verður til. Tilfinningar koma fram ef til vill á kostnað röklegrar hugsunar. Einn af ótalmörgum eiginleikum minnisins er að þegar við hlustum á aðra fer okkar eigið minni af stað sem er oft allt annað en minni þeirra sem segja frá. Minnið breytist og endurvinnur þær upplýsingar sem við meðtökum dag hvern.

Sjónarhorn þeirra sem segja sögu og þeirra sem hlusta skiptir miklu máli og heilbrigðisstarfsfólk er að átta sig betur á því að lífssaga fólks er mikilvæg í bataferli. Frásagnir einstaklinga snúast um að hafa stjórn á eigin lífi og aðstæðum. Að segja eða skrifa sögu sína er einskonar lagfæring á biluninni sem verður þegar alvarlegar lífsógnandi aðstæður skapast í lífi fólks, sjálfsmyndin laskast við slíkar aðstæður og hver og einn verður að finna fyrir sig hvað hentar, eins og á við um bókmenntasmekk. Rithöfundar hafa skrifað sig frá erfiðri reynslu sem gagnast öðrum til lestrar á þann hátt að þeirra hugarflug tekur á rás, þeir finna til samkenndar og samlíðunar með sögupersónum og á þann hátt verður samtal sem getur orðið til þess að eitthvað leiðir til einhvers.