Anna María Björnsdóttir
Leið mín að bókmenntafræði var ekki alveg þráðbein heldur tók það mig smá stund að komast hingað. Ég sá alltaf fyrir mér að ég yrði raunvísindakona og lá stefnan í rauninni að jarðfræði. En þegar ég byrjaði í háskólanum áttaði ég mig fljótt á því að ég var á rangri braut. Ég hugsaði því með mér hvað mig langaði virkilega til þess að læra og kom bókmenntafræðin strax upp í hugann. Í dag er ég á þriðja ári og sé alls ekki eftir þeirri ákvörðun að hafa skipt um nám og tekið þessa stefnu.
Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á sögum, hvort sem ég las um þær eða samdi þær sjálf. Ég og vinkonur mínar eyddum heilu dögunum að teikna ketti í fötum og búa til heilan heim í kringum þá. Þessi ástríða mín hefur fylgt mér alla leið í háskóla og stefni ég á að nýta hana við einhvers konar útgáfustörf, þó ég sé ekki endilega sú sem segir söguna sjálf.
Skemmtileg námskeið
Þau eru mörg skemmtileg námskeiðin innan greinarinnar en það sem kemur fyrst upp í hugann hjá mér er Latneskar bókmenntir, kennt af Hjalta Snæ Ægissyni, en þar fjölluðum við ítarlega um Eneasar- og Ódysseifskviðu ásamt því að lesa ljóð og aðra texta eftir fornrómversk skáld. Ég er einnig mjög spennt fyrir þeim námskeiðum sem ég er að taka núna í haust líkt og Kynlíf, stríð og Shakespeare og Bókmenntir innflytjenda. Svo næsta vor mun ég taka námskeið um vistrýni og einnig forngrískar bókmenntir sem ég hlakka mikið til að sitja.
Uppáhalds bók
Þegar maður les mikið er erfitt að velja sér uppáhalds verk en ég hef verið virkilega hrifin af þýðingum Angústúru nýlega. Sú sem hefur setið hvað lengst eftir er Kona í hvarfpunkti eftir Nawal El Sadaawi. Bókin segir frá ungri egypskri konu sem neyddist til þess að gerast vændiskona og endar í fangelsi fyrir morð. Eftirminnilegasta setning bókarinnar var: ,,Þú verður að vera grimmari en lífið,“ (83). En þetta segir maddaman við Firdaus, aðalpersónuna, eftir að hún kemur fyrst til hennar nýsloppin frá kvalara sínum. Firdaus tileinkar sér þessi orð og snýst líf hennar þar eftir einungis um hana sjálfa. Ég dró heilmikinn lærdóm frá þessari sögu og mæli með henni fyrir alla!
Áherslur á eitthvað sérstakt
Ég hef ekki gleymt uppruna mínum úr raunvísindum og hef því mikinn áhuga á að skoða hvernig samband manns og náttúru birtist í gegnum bókmenntir. Í vor gerði ég þriggja ritgerða verkefni þar sem ég vistrýndi þrjú skáldverk eftir Vigdísi Grímsdóttur og kviknuðu þar margar hugmyndir hjá mér. Skemmtilegast þykir mér að lesa með gleraugum vistrýnar eða eftirlendufræða, enda eru það einmitt málefni sem eiga vel við í dag og eru að mínu mati hvað mikilvægust í okkar samfélagi.