Þóra Gréta Pálmadóttir
„A reader lives a thousand lives before he dies . . . The man who never reads lives only one.“
~ George R.R. Martin ~
Ég heiti Þóra Gréta og er að læra hagnýta ritstjórn og útgáfu við Háskóla Íslands. Helstu áhugamál mín eru lestur, skrif, prjónaskapur og samvera með fjölskyldu minni. Fyrir er ég með BS próf í sálfræði og MA í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf. Ég stefni að því að klára einnig MA í hagnýtri ritstjórn og útgáfu og liggur áhugi minn helst í að skrifa og vinna að útgáfu.
Árið 2018 tók ég námskeið í skapandi skrifum og fann að áhugi minn lá mikið í bókmenntum, skrifum og þessháttar. Ég breytti því töluvert um áherslur þegar ég fór af Menntavísindasviði og yfir á Hugvísindasvið en ég finn að ég er á réttri hillu. Námskeiðin á námsleiðinni vekja mikinn áhuga hjá mér og tók ég til að mynda þýðingarfræði síðasta haust, sem mér þótti virkilega hagnýtur og skemmtilegur áfangi.
Ég les ótrúlega mikið og hlusta gjarnan á hljóðbækur. Mér finnst alltaf gott að grípa í góðan krimma en ég hef áhuga á fjölbreyttum bókmenntum. Minn uppáhalds rithöfundur er Jón Kalmann Stefánsson og ein af mínum uppáhalds bókum er Saga Ástu. Önnur bók sem ég held mikið uppá er Wuthering Heights eftir Emily Brontë. Ég les einnig prjónabækur og prjóna mikið og þar af leiðandi kann ég vel að meta góða og fallega prjónabók. Þar skiptir skipulag og fallegar myndir öllu máli að mínu mati. Auk þess horfi ég gjarnan á sjónvarp þegar færi gefst og hef þá helst áhuga á ævintýraþáttum og ýmsum vísindaskáldskap. Mig hefur til dæmis alltaf dreymt um að skrifa vísindaskáldskap fyrir unglinga.
Ég hef mikinn áhuga á að skrifa, skapa og gefa út. Mig langar að hjálpa öðrum að gefa út en myndi gjarnan vilja gefa út mitt eigið efni líka. Ég hef mikinn áhuga á að kanna leiðir til þess að gefa út fjölbreytt efni á vef, í appi eða í rafbókarformi, meðal annars vegna umhverfissjónarmiða, þó ég sé sjálf svolítið veik fyrir klassísku prentuðu bókunum.