Kristinn Theódórsson
„Her presence seared me like a flame... but what did I care what kind of fire this was in which I burned and melted, when it was bliss to burn and melt?“
~ Ivan Turgenev, First Love~
Seint koma sumir en koma þó
Ég er loksins að koma því að í lífi mínu að klára BA námið sem ég byrjaði á fyrir mörgum árum og tveimur börnum síðan. Þá var ég í heimspekinni og síðustu ritgerðirnar voru um þráttarhyggju Hegels (sá það á Uglu um daginn). Núna ákvað ég svo að söðla um og klára með bókmenntafræði sem aukagrein. Eftir það er ég að gæla við að taka sálfræðina. Sú hugmynd er þó enn í mótun.
Hversdagsleg ævintýri
Mér fannst námskeiðið Bókmenntaritgerðir á nýliðnu hausti bráðskemmtilegt námskeið. Kannski sérstaklega af því að bókin sem við eyddum mestum tíma í að fjalla um er svo nútímalegt og aðgengilegt verk að það var líflegt og skemmtilegt að greina það. Um er að ræða bókina Herbergi í öðrum heimi eftir Maríu Elísabetu Bragadóttur. Þetta er sniðugt smásagnasafn um allskyns mannlegar og hversdagslegar flækjur sem Maríu Elísabetu tekst að ljá lífi með allskyns litlum ævintýralegu innskotum.
Tilvistarhyggja í stórborginni
Ég er með kvikmyndina Lost in Translation (2003) eftir Sofia Coppola á heilanum. Ég horfi helst á hana í jólafríinu á hverju ári og sé alltaf eitthvað nýtt í henni. Hún er um ákaflega hugljúft platónskt vinasamband persónanna sem Bill Murray og Scarlett Johansson leika. Þau eiga bæði í dálítilli tilvistarkreppu og sjá það í fari hvors annars. Fyrir vikið eru þau akkúrat rétt stemmd fyrir kæruleysislegan þvæling um næturlíf Tokyo borgar saman og úr því verður ein notalegasta saga um fallega vináttu sem ég hef séð.