Sigríður Wöhler


Ég fer gjarnan eftir orðatiltækinu „vertu þú sjálf/ur“. Veit svo sem ekki hvaðan það kemur eða hver sagði það. En hef gjarnan haft það í huga þegar ég hef ekki verið viss hvernig maður á að haga sér í hinum ýmsu uppákomum og atvikum. En hefur reynst mér vel.

Ég heiti Sigríður Wöhler og ég starfa sem ritstjóri hjá Menntamálastofnun. Ég er í hagnýtri ritstjórn og útgáfu til þess að auka við þekkingu mína í starfi. Áhugamálin eru margvísleg, ég er mikið í útivist, stunda fjallgöngur, sund og skíði. Ég hef mikinn áhuga á garðrækt og alls kyns ræktun til heimanotkunar og er svo heppin að eiga stóran garð þar sem ég fæ mikla útrás fyrir þetta hugðarefni mitt. Ljósmyndun hefur einnig náð að heilla mig en því miður næ ég ekki að sinna því áhugamáli eins og ég vildi, í bili.

Ein af mínum uppáhaldsbókum er Heimsljós eftir Halldór Laxness. Hana hef ég lesið nokkrum sinnum og fer að koma tími aftur á endurfundi þar. Það sem er heillandi við sögur eins og hana er að hægt að lesa þær aftur og aftur og finna í hvert sinn eitthvert nýtt og spennandi að skoða og velta vöngum yfir. Svo les ég töluvert af barnabókum þessa dagana fyrir barnabörnin mín. Í sérstöku uppáhaldi eru bækur Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur. Henni tekst í bókum sínum að skrifa þannig að sögur, atvik og persónur höfða bæði til fullorðinna og barna. Það finnst mér mikill kostur.

Það er hverjum manni nauðsynlegt að stíga öðru hverju út úr sínum hefðbundna þægindaramma og hrista upp í þekkingu og reynslu. Það er það sem ég er að leita eftir í náminu. Að bæta við þekkingu og koma með nýja reynslu af hvaða tagi sem er inn í starfið mitt og tilveru.

Ég fer gjarnan eftir orðatiltækinu „vertu þú sjálf/ur“. Veit svo sem ekki hvaðan það kemur eða hver sagði það. En hef gjarnan haft það í huga þegar ég hef ekki verið viss hvernig maður á að haga sér í hinum ýmsu uppákomum og atvikum. En hefur reynst mér vel.

Ljósmyndirnar eru myndir sem ég tók sjálf.

Að sitja í ritstjórastól

Fyrir all mörgum árum ákvað ég að skipta um starfsvettvang, fór í diplómanám við Háskóla Íslands til að bæta við þekkingu mína og hressa upp á rykfallnar sellur. Að námi loknu var ég svo heppin að fá starf sem ritstjóri, ég átti að vera til afleysinga í eitt ár en fékk ráðningu áfram og er þar enn.

Ritstjórastarfið þekkti ég í raun ekki neitt en með aðstoð reyndra ritstjóra og annarra sem störfuðu á sama vinnustað komst ég smátt og smátt inn í starfið og náði tökum á flestum þáttum þess á nokkrum árum. Í byrjun gerði ég mér ekki grein fyrir því hversu fjölbreytt og viðburðaríkt starfið getur verið. Ég hafði gert mér í hugarlund að þetta væri frekar venjubundið starf þar sem fylgt væri föstu dagsplani. En þegar ég fer yfir í huganum og velti upp þeim verkefnum sem ég hef unnið að verður það æ ljósara að það er nánast enginn dagur eins. Sífellt er verið að taka nýjar ákvarðanir, ný og spennandi verkefni liggja á borðinu og bíða úrvinnslu, það þarf að leita uppi rétta fólkið í hvert nýtt verk, ný verk sjá dagsins ljós og svo þarf að koma þeim á framfæri.

Það sem hins vegar stendur upp úr hjá mér er allt það frábæra fólk sem ég hef kynnst og fengið að starfa með. Það er ómetanlegt að fá að starfa með skapandi og hugmyndaríku fólki sem kemur með ný sjónarhorn á þau verkefni sem verið er að vinna að hverju sinni. Ég hef lært svo ótal margt af þeim sem ég hef fengið að vinna með og fyrir það er ég mjög þakklát. 

Mér finnast það vera forréttindi að fá að stefna saman fólki með mismunandi hæfni, færni og kunnáttu, vinna þétt saman í ákveðinn tíma og koma svo einhverri afurð frá sér sem allir hafa lagt sitt mark á. Það er fátt skemmtilegra!

Þessa dagana er ég í Háskóla Ísland í endurmenntun, auka kunnáttu mína sem ritstjóri og fá innsýn inn í vefheima. Það er vettvangur sem ég hef lítið sem ekkert unnið að. Mér finnst nauðsynlegt að standa öðru hvoru upp frá því sem ég er að vinna að, ná mér í vítamínsprautur í formi endurmenntunar og koma svo endurnærð til baka með nýjar hugmyndir og víðari sýn á lífið og tilveruna.

Ritstjórastóllinn getur stundum verið harður. Enginn er hafinn yfir gagnrýni og sú ábyrgð sem liggur á herðum ritstjóra getur stundum verið þung. Það er samt sem áður einn af kostum starfsins, að fá að bera ábyrgð, standa undir henni og vera faglegur í því sem maður setur fram og tekur sér fyrir hendur.