Hallvarður Jón Guðmundsson

Tilvitnunin sem ég vil láta fylgja hér með eru þessi orð risans úr Twin Peaks:
„The Owls Are Not What They Seem”
Orð að sönnu

Mynd af mér í Driller Killer-bolnum mínum.

Ég heiti Hallvarður Jón Guðmundsson og er nemandi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands. Frá því ég man eftir hef ég haft brennandi áhuga á kvikmyndum, myndasögum og tónlist. Lengi hefur hugurinn stefnt að því að sinna þessum áhuga á kvikmyndum og læra sem mest um miðilinn. Þar sem faðir minn var gítarkennari var ég frá átta ára aldri byrjaður að læra á gítar. Laust fyrir tvítugt fór ég að spila í rokkhljómsveitum, ýmist á gítar eða bassa, og er um þessar mundir gítarleikari og söngvari í hljómsveitinni Brött Brekka, sem hefur starfað síðan 2014, einnig spila ég á gítar í gjörningabandinu Man Kind sem hefur starfað síðan 2018.  Auk þess teiknaði ég mikið sem barn, m.a. gerði ég nokkrar myndasögur sem voru fjölritaðar fyrir vini og ættingja. Þegar ég fór í framhaldsskóla ákvað ég að fara á myndlistarbraut í Fjölbraut í Breiðholti. Á þessu ári þegar heimsfaraldurinn hefur geisað yfir hef ég endurnýjað áhuga minn á því að teikna og stefni á að gera myndasögur aftur. Hjá mér snýst námið um að næra áhugamálin mín og öðlast þá menntun og skilning sem ég vil hafa í þessu fagi.

Eitt skemmtilegasta námskeið sem ég hef tekið í kvikmyndafræði er Költmynda-námskeiðið sem Gunnar Tómas Kristófersson kenndi. Í því námskeiði horfðum við á alls kyns kvikmyndir sem hafa með einum eða öðrum hætti fest sig í sessi sem kvikmyndir með dygga aðdáendahópa. Einnig er mér minnisstætt námskeiðið Kvikmyndir og Femínismi sem Lára Marteinsdóttir kenndi. Þar sáum við margar kvikmyndir sem hafa svolítið siglt undir radarinn í kvikmyndaumræðunni og einnig urðu oft líflegar umræður sérstaklega í tímanum þar sem við horfðum á fjórðu Twilight-myndina. Þriðja námskeiðið sem mig langar að nefna hét Kvikmyndahöfundar og var kennt af Hjalta Snæ Ægissyni. Höfundarkenningin í kvikmyndafræði eins og hún var lögð fram á 6. áratugnum er ekki gallalaus en fyrir mér var þetta mjög áhugavert námskeið þar sem ég hef alla tíð verið mjög höfundar-miðaður þegar kemur að kvikmyndum, hvort sem ríkjandi höfundarröddin sé leikstjórinn, handritshöfundurinn eða einhver annar.

Hrollvekjur og vísindaskáldskapur eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Þá eiga kvikmyndirnar Cat People (sú upprunalega frá 1942) og Twin Peaks: Fire Walk With Me sérstakan stað í hjarta mínu. Eftirlætis kvikmyndirnar mínar sem heyra undir vísindaskáldskap eru Videodrome, Blade Runner og Alien, svo fáar séu nefndar. Ég hef alltaf verið hrifinn af kvikmyndum sem fjalla um myrku hliðar mannskepnunnar og einnig hef ég ávallt haft gaman af kvikmyndum sem búa til nýja, framandi heima, hvort sem þeir eru á öðrum plánetum eða huldir fletir á okkar eigin veruleika hér á jörðinni. Minn uppáhalds kvikmyndagerðarmaður er David Lynch sem hefur einstakt lag á því að sýna óhugnaðinn og furðulegheitin sem hvíla undir yfirborði hversdagsleikans.

 

Áritaða DVD-eintakið mitt af Twin Peaks: Fire Walk With Me. (Einhverra hluta vegna hélt Word að þetta væri mynd af örbylgjuofni).

Mín uppáhalds sjónvarpsþáttaröð er Twin Peaks, sem var samin af David Lynch og Mark Frost. Raunar er Twin Peaks ekki bara uppáhalds sjónvarpsþáttaröðin mín heldur er hún mitt uppáhalds skáldverk í heild sinni. Fyrir mér er þessi þáttaröð heil veröld full af ráðgátum sem alltaf er gaman að velta fyrir sér. Önnur þáttaröð sem er í miklu uppáhaldi hjá mér eru japönsku teiknimyndaþættirnir Neon Genesis Evangelion sem er einnig þáttaröð svipuð dulúð og ýmsum ósvöruðum spurningum líkt og Twin Peaks. Einnig hef ég mjög gaman af þáttunum um hinn glögga rannsóknarlögreglumann Columbo sem er orðinn traustur heimilisvinur.

 

Líkt og svo margir aðrir sem ólust upp við að lesa myndasögur var myndasagan Watchmen eftir Alan Moore og Dave Gibbons bók sem olli straumhvörfum á unglingsárum mínum. Myndasöguraðirnar The Invisibles og Seven Soldiers eftir höfundinn Grant Morrison og aragrúa af mismunandi teiknurum höfðu líka mikil áhrif á það hvernig ég hugsa um skáldskap og sagnalistina. Á síðustu árum hef ég verið einstaklega hrifinn af myndasöguhöfundi sem heitir Tom Scioli sem hefur gert garðinn frægann með því að teikna snælduvitlausar myndasögur byggðar á leikföngum og teiknimyndaþáttum frá 9. áratugnum, eins og t.d. Transformers, G.I. Joe og Go-Bots.

Eins og áður hefur komið fram þá er ég mjög mikið fyrir vísindaskáldskap og held mikið upp á bækur William Gibson og Philip K. Dick. Venjulega hef ég laðast meira að súrrealísku og furðulegu hliðinni á vísindaskáldskap og því eru ljóðrænu útskýringar William Gibson á ranghölum sæberbólsins (e. cyberspace) sem og sýrukenndar lýsingar Philip K. Dick á alls konar hliðarveruleikum eitthvað sem er mér mjög að skapi. Einnig er ég mjög hrifinn af bókinni The Crying of Lot 49 eftir Thomas Pynchon þar sem yfirgripsmiklar samsæriskenningar finna sitt rétta heimili, þ.e.a.s í skáldskap. Upp á síðkastið hef ég verið að lesa myndasöguröðina Prophet sem er gefin út af Image Comics og haft mjög gaman af. Auk þess hef ég verið að horfa á upprunalegu Star Trek-þættina og japönsku teiknimyndaþættina Space Runaway Ideon.

 

Kötturinn minn hún Öskubuska sem situr og gægist oft út um gluggann.

Ég vil leggja áherslu á að verða ritfær og geta komið því skiljanlega frá mér sem ég vil segja. Að auki vil ég vinna að því að finna mína eigin rödd í skrifum og mögulega þróa með mér persónulegan ritstíl. Það sem ég hef mestan áhuga á að skrifa um eru kvikmyndir og dægurmenning, þá hef ég sérstakan áhuga á því að skrifa um hrollvekjur af því að mér hefur lengi fundist vanta skrif á íslensku um þá skáldskapargrein. Markmiðið mitt í kvikmyndafræðinni er að öðlast yfirgripsmikla þekkingu á kvikmyndasögu og kvikmyndakenningum og planið hjá mér er að skrifa B.A. ritgerðina mína um David Lynch og stormasamt samband hans við Hollywood og kvikmyndaiðnaðinn, sérstaklega hvernig það birtist í kvikmyndunum Mulholland Drive og Inland Empire.